79% Íslendinga eru sammála því að Ísland eigi að beita sér fyrir því að Ísrael og Hamas virði alþjóðalög og semji um vopnahlé.
Þetta kemur fram í könnun frá Maskínu um viðhorf almennings til ýmissa þátta í utanríkisþjónustu Íslands.
Ef marka má niðurstöður könnunarinnar er afgerandi meirihluti Íslendinga sammála því að Ísland eigi að styðja við sjálfstæði Palestínu, eða 73%, þar með talið aðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum.
Um 16% Íslendinga eru hvorki með né á móti sjálfstæði Palestínu á meðan 11% eru ósammála því að Ísland eigi að styðja við sjálfstæði Palestínu.
Nærri helmingur Íslendinga er ósammála því að Ísland eigi að styðja rétt Ísraels til sjálfsvarnar innan marka alþjóðalaga, eða um 48%.
Þá eru um 23,5% hvorki með né á móti og 29% sammála fullyrðingunni.