Ætlar að vanda sig enda viðkvæmt mál

Rík­is­sak­sókn­ari hef­ur óskað eft­ir því að Helgi Magnús Gunn­ars­son vara­rík­is­sak­sókn­ari …
Rík­is­sak­sókn­ari hef­ur óskað eft­ir því að Helgi Magnús Gunn­ars­son vara­rík­is­sak­sókn­ari verði leyst­ur frá störf­um. Samsett mynd

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur enn ekki tekin ákvörðun í máli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara.

„Ég hef verið að bíða eftir áliti lögfræðinga utan úr bæ og svo mun ég komast að niðurstöðu. Vonandi fyrr en seinna,” segir Guðrún, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari lagði í síðasta mánuði til við dómsmálaráðherra að Helgi Magnús yrði leystur frá störfum tímabundið vegna ummæla hans í garð hinsegin fólks og útlendinga.

Aðspurð segist Guðrún gera sér grein fyrir því að málið hafi tekið dágóðan tíma.

„En ég sagði líka í upphafi að þetta er viðkvæmt mál. Þetta varðar æðstu stjórnendur ákæruvaldsins á Íslandi. Ég sagði strax að ég ætlaði að vanda mig og ég er að vanda mig. Svo bara kemur niðurstaða,” segir Guðrún, sem kveðst ekki hafa rætt málið við Helga Magnús.

Hún segir að vonandi muni styttri tími líða en vikur í að málinu ljúki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka