Aldrei um neitt annað að ræða en að klára verkið

Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli á sunnudag.
Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli á sunnudag. Ljósmynd/Landsbjörg

„Þarna varð vissulega alvarlegt slys og menn mega ekki gleyma því. Þarna lést því miður erlendur ferðamaður og annar slasaðist nokkuð illa. Þannig það var full ástæða til að bregðast við,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, um aðgerðir björgunarsveita á Breiðamerkurjökli síðustu tvo daga.

Á þriðja hundrað manns komu að leit tveggja ferðamanna í jöklinum eftir að íshellir féll en seinna kom í ljós að umræddir ferðamenn voru ekki til og að um mistalningu af hálfu ferðaskrifstofunnar sem stóð fyrir jöklaferðinni var að ræða.

Leituðu af sér allan grun

Björgunarmenn sinntu störfum við krefjandi aðstæður á jöklinum en spurður út í ástand mannskapsins að aðgerðum loknum segist Jón Þór ekki hafa frétt af neinum meiðslum en hann gerir ráð fyrir að menn hafi komið þreyttir heim.

Þá segir hann að jafnvel þó að grunur hafi kviknað fyrir hádegi í gær um að engir ferðamenn væru undir ísfarginu þá hafi aldrei neitt annað verið í stöðunni en að klára verkið.

„Auðvitað voru þessar aðstæður þess eðlis í gær að það var ekkert annað í stöðunni en að leita af sér allan grun. Ég held að það hafi bara verið almennur samtakamáttur þeirra sem þar voru að gera það. En hvernig fólki var svo við þegar kom í ljós að það var mistalið og enginn var þarna undir, ég get ímyndað mér að fólki hafi nú bara verið nokkuð létt,“ segir Jón Þór.

Jón Þór Víglundsson - Upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Jón Þór Víglundsson - Upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Ljósmynd/Landsbjörg

Strax uppi misskilningur

Í sambandi við mistalningu ferðaþjónustufyrirtækisins segir Jón Þór eðlilegt að rökhugsun sé ekki upp á sitt besta þegar kemur að slysum sem þessum.

„Það er bara þekkt að þegar fólk er í þeirri stöðu þá víkur rökhugsunin örlítið og það skapast ákveðin óvissa. Það er alltaf það sem er eitt af þeim stóru verkefnum sem þarf að fást við þegar það verða svona slys þar sem einhver fjöldi manns er viðloðandi. Það þarf að ná utan um það og það nýst meðal annars um hversu margir lentu í slysinu,“ segir Jón Þór.

„Svo kemur það bara í ljós við rannsókn lögreglu að það eru allar líkur á að það hafi bara 23 farið upp en það var ekki hægt að staðreyna það án vafa. Svo það var ekki um neitt annað að ræða en að klára verkefnið, sem var gert.“

Kostnaðurinn hár

Spurður hvort það liggi fyrir hver kostnaðurinn við aðgerðina sé segir Jón Þór að hann verði ekki reiknaður út en það liggi fyrir að hann sé töluverður.

„Kostnaður við svona einstaka aðgerð er hár og það sjá það allir. Þarna eru mörg hundruð manns og tugir ökutækja og búnaður sem er notaður en það er bara það sem þarf og þarna vissu menn ekki betur en að þarna væri fólk undir og þá er öllu til tjaldað. En við reiknum ekki út hvað það kostar.“

Jón Þór bætir við að það kosti talsvert að reka björgunarsveitir um allt land árið í kring og að sá kostnaður hlaupi á milljörðum.

„En ég held að við sem þjóð höfum sýnt það í gegnum tíðina að það er eitthvað sem við erum tilbúin að taka á okkur. Almenningur hefur alla vega sýnt það í verki síðustu ár að hann telur að þessu fé sé vel varið í það starf sem að björgunarsveitirnar sinna,“ segir Jón Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert