Bjartsýn á að opna nýjan Kársnesskóla næsta haust

Ásdís segir ekki ljóst hver heildarkostnaður framkvæmdarinnar verður. Samkvæmt kostnaðaráætlun …
Ásdís segir ekki ljóst hver heildarkostnaður framkvæmdarinnar verður. Samkvæmt kostnaðaráætlun mun hann kosta um 3,6 milljarða. mbl.is/Hákon Pálsson

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, kveðst bjartsýn á að taka nýtt húsnæði Kársnesskóla til notkunar haustið 2025.

Til stóð að taka húsnæðið í notkun fyrri hluta árs 2024 og svo um áramótin.

„Ég er bjartsýn og við teljum að búið sé að finna alla galla sem þurfti að lagfæra. Þessi vinna við að greina ástand bygginga tók marga mánuði en hefur gengið vel,“ segir Ásdís.

Heildarkostnaður óljós

Hægagangur í framkvæmd nýs skóla má að mörgu leyti rekja til þess þegar bæjarstjórn Kópavogs rifti samningi við verktakafyrirtækið Rizzani de Eccher eftir að upp komu gallar á verki verktakans. 

Ákvörðun um að rifta samningi við verktakafyrirtækið var gagnrýnd af bæjarfulltrúum innan minnihluta bæjarstjórnar Kópavogs meðal annars sökum þess að riftunin gæti kallað á skaðabótaskyldu.

Ásdís segir að beðið sé úrskurðar gerðardóms um hvort riftun samningsins hafi verið lögmæt. 

Hún segir ekki ljóst hver heildarkostnaður framkvæmdarinnar verður en áætlaður kostnaður er 3,6 milljarðar.

„Það er ekki ljóst hver heildarkostnaður verður. Gerðardómur sker úr hvort riftun verksamnings sé lögmæt og tekur gerðardómur kröfur aðila fyrir í framhaldi,“ segir hún. 

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir að beðið sé úrskurðar gerðardóms …
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir að beðið sé úrskurðar gerðardóms um hvort riftun samnings við verktakafyrirtækið hafi verið lögmæt. Riftunin gæti kallað á skaðabótaskyldu. mbl.is/Hallur Már

Skynsamlegt var að rifta samningi

Spurð hvort að hún telji það hafa verið skynsamlegt að á sínum tíma að rifta samningi við verktakafyrirtækið segir Ásdís að það hafi verið eina kostinn í stöðunni. 

„Húsið lá undir skemmdum, lítil sem engin framvinda var á verkstað og verktakinn stóð ekki í skilum við undirverktaka sem voru farnir af verkstað. Það kom aldrei til greina að bjóða skólabörnum uppá nýtt skólahúsnæði sem ekki stæðust okkar gæðakröfur.“

Rúv greindi frá því í gær að til hefði staðið að taka húsið til notkunar um árámótin en í ljós kom að ytra byrði útveggja væri í verra ástandi en haldið var og að það hafi sitt að segja um tafir á framkvæmdum.

Núverandi skólahús annar ekki eftirspurn

Fyrr á árinu var greint frá því að skipta þyrfti Kársnesskóla í tvo sjálfstæða skóla sem yrðu hvor í sínu húsinu. Ástæða skiptingarinnar var sögð vera fjöldi barna á skólaaldri í hverfinu.

Ásdís segir nýja húsnæðið koma til með að mæta fjölgun íbúa á svæðinu. Hún segir að skólanum hafi verið skipt upp til þess að tryggja betur faglegt starf, bæði þegar kemur að stjórnun og rekstri. 

„Fyrirsjáanlegt var að börnum á svæðinu myndi fjölga og við höfum séð að ef skólar verða of stór þá glatast bæði fagleg og rekstrarleg yfirsýn.“

Ásdís segir nýja húsnæðið koma til með að mæta fjölgun …
Ásdís segir nýja húsnæðið koma til með að mæta fjölgun íbúa á svæðinu. mbl.is/Hákon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert