Karlmaður á fertugsaldri var fluttur á slysadeild eftir slagsmál á bar í Lóuhólum í Breiðholti um sjöleytið í gærkvöldi.
Greint var frá því í dagbók lögreglunnar í morgun að einn væri í haldi vegna stórfelldrar líkamsárásar.
Spurður út í málið segir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að tveir menn á fertugsaldri hefðu slegist inni á barnum og fyrir utan hann. Hnefarnir voru á lofti og hlaut maðurinn sem var fluttur á slysadeild áverka bæði á höfði og kvið. Var hann bæði marinn og blár. Hinn maðurinn var vistaður í fangaklefa. Báðir mennirnir voru ölvaðir.
Sportbarinn Álfurinn er til húsa í Hólagarði í Lóuhólum.