Borga mat fyrir börn sem mæta á Range Rover

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir réttlætismál að greiða niður skólamat fyrir öll börn, jafnvel þau sem koma frá efnameiri heimilum. Rétt forgangsröðun felist í því.

Þetta kemur fram í viðtali á vettvangi Spursmála þar sem hann er spurður út í það hvort rétt sé að forgangsraða peningum með þessum hætti í kerfi sem margir telji fjársvelt. Stjórnvöld ákváðu að liðka fyrir kjarasamningum á almennum vinnumarkaði fyrr á þessu ári með því að heita öllum börnum á grunnskólaaldri fríum skólamat.

Samtalið um þetta má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan en það er einnig dregið saman í textanum hér að neðan.

Mæta í skólann á 30 milljóna bílum en fá frían mat

Það vantar peninga inn í þetta og kennarar kvarta undan því að það vanti meiri aðstoð, meiri stuðning inn í skólastofurnar, ekki síst þar sem börn með annað móðurmál en íslensku eru í stórum hópum. Á sama tíma og kallað er eftir þessum peningum þá tekur þú, eða takið þið ákvörðun í sambandi og samtali við verkalýðsforystuna að gera skólamáltíðir fríar á Íslandi. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé rétt forgangsröðun eða hvort þetta sé tilraun til þess að draga fókusinn fá hinu raunverulega vandamáli sem eru þessar mælingar. Hvaða tilgangi á það að þjóna að veita fjármagni sem er af skornum skammti í það að borga niður skolamáltíði fyrir þúsundir barna, sem koma frá heimilum, tugir þúsunda barna, frá heimilum sem geta vel borgað fyrir þessar máltíði og gera það með góðu geði? Af hverju var ekki hægt að hafa kerfið með sama hætti og áður var að foreldrar efnaminni heimila gátu fengið aðstoð við að greiða fyrir þetta, af hverju þurfa börnin í Garðabæ, sem skutlað er í skólann á 30 milljóna Range Roverum að fá þessar skólamáltíðir fríar?

„Þarna, Stefán, erum við algjörlega ósammála og...“

Ég hef ekki lýst neinni skoðun. Ég er bara að spyrja þig spurningarinnar.

„Ja, ég hef séð. Ég er algjörlega ósammála þér þarna.“

Hverju ertu ósammála?

„Ég er algjörlega ósammála því...“

Ásmundur Einar Daðason situr fyrir svörum í Spursmálum að þessu …
Ásmundur Einar Daðason situr fyrir svörum í Spursmálum að þessu sinni. mbl.is/María Matthíasdóttir

Samkvæmt barnasáttmálanum

Ertu semsagt ósammála því að þessi börn þurfi ekki á þessu að halda?

„þú verður að leyfa mér að svara. Þú hélst langa ræðu, túlkandi ræðu um það hvernig mín sýn væri á þessi mál þannig að ég verð að fá að svara því. Þegar kemur að gjaldfrjálsum skólum í íslensku samfélagi, þegar kemur að skólastarfi í íslensku samfélagi þá er það algjör grundvallarréttindi að skólar, grunnám sé gjaldfrjálst. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um að skólar eigi að vera gjaldfrjálsir...“

Þeir hafa verið það.

„...Leyfðu mér nú að útskýra, að skólar eigi að vera gjaldfrjálsir og án endurgjalds. Það þýðir að það sem er inni í skólanum, hvort sem það eru skólamáltíðir, námsgögn eða annað...“

Skólafatnaður...

„Sé gjaldfrjálst, ja...“

Skólafatnaður, skólatöskur...

„Við erum í fötum innan og utan skóla sko.“

Við borðum líka innan og utan skólans.

„Já en það sem er innan skólans sé gjaldfrjálst. Að þetta séu réttindi barna að njóta gjaldfrjálsrar menntunar. Og ef við skoðum bara tölfræðina í þessu, af því að við erum búnir að ræða töluvert um tölfræði og erum báðir áhugamenn báðir um það þótt við séum ekki alveg sammála um útfærslurnar. Þá er það þannig að við erum að sjá það í íslensku samfélagi að menntakerfið, og þetta sýna bara PISA-niðurstöðurnar, að menntakerfið okkar hefur í gegnum tíðina, það hefur ekki verið munur þegar kemur að félagslegum bakgrunni eða hvernig bakgrunnur heima fyrir er.“

Gert til að auka á jöfnuð

Af hverju þarf þá að ráðast í þessa aðgerð?

„Og hluti af því er að við viljum mæta börnunum þannig að þetta sé gjaldfrjálst. Það byggir á gögnum, það byggir á rökum...“ 

Nei, bíddu gögnin segja að það sé ekki félagslegur munur...

„Nei það var þannig. Það er að breytast. Ísland skar sig úr...“

Það er ekki að breytast út af máltíðunum. Börn frá efnaminni heimilum geta fengið þetta niðurgreitt og sveitarfélögin gera það með glöðu geði. Allir taka undir það að þeir sem ekki hafa efni á því að kaupa mat fyrir börnin sín fái stuðning til þess. Af hverju eruð þið að borga niður mat fyrir þau þúsundir barna sem koma frá heimilum þar sem nóg er til. Er það rétt forgangsröðun á fjármunum sem eru af skornum skammti. Finnst þér það rétt forgangsröðun?

„Ef við þurfum að bregðast við með forgangsröðun í íslensku samfélagi sem við sannarlega þurfum að gera og ég hef lagt fram tillögur í því í minni ráðherratíð og við getum rætt það sérstaklega, þá á það ekki að vera þannig að það sé gagnvart réttindum barna, barna sem eiga rétt á því að ganga í gjaldfrjálsan skóla. Og ég ætla bara að segja þér það Stefán að ég þekki það af eigin raun að búa við þær aðstæður að það sé ekki til peningur fyrir nauðsynlegum atriðum, eins og til að mynda því sem aðrir geta valið, kvíðann fyrir því...“

Það á einnig við um fatnaðinn líka. Ætlið þið þá ekki líka að fara að kaupa fatnaðinn á börnin?

„Skólinn er grunnþjónusta í íslensku samfélagi...“

Vitnar í varaforsetaefni í Bandaríkjunum

Fatnaðurinn sem börnin. Er það næsta skref?

„Nei, þú verður að leyfa mér að svara. Ég er algjörlega á andstæðum meiði við þetta og ég ætla bara að vitna í varaforsetaefni Kamölu Harris sem sagði það að ef þetta væri vond pólitík að forgangsraða þannig að við séum að bjóða öllum börnum upp á þetta þá glaður skal ég glaður bera þá orðu að standa fyrir slíka vonda pólitík.“

Heitir þetta ekki bara að vera góður á kostnað annarra? Þið eruð að borga niður máltíðir fyrir fólk sem þarf ekki á því að halda. Hvar á það að enda í ríkissjóði sem rekinn er með tugþúsunda milljóna halla á ári hverju. Og í kerfi sem þú ferð fyrir þar sem vantar peninga til að borga fleiri kennurum, fleiri leiðbeinendum, skólagögnin sannarlega.

„Hluti af því að búa til skólakerfi með jöfnuð er að standa við bakið á börnum og að þetta sé réttindi þeirra.“

Þið eruð að standa við bakið á börnum sem þurfa ekki á því að halda.

„Þú leyfir mér aldrei að svara. EF við viljum hagræða og nýta fjármagn betur þá skulum við gera það í einhverju sem tengist útgjöldum beint hjá okkur fullorðna fólkinu, ekki börnunum og ég skal glaður koma með þér í það ferðalag að telja upp nokkur dæmi sem við gætum nefnt þar.“

Skólamáltíðir eru útgjöld foreldranna, ekki barnanna.

„Nei, skólamáltíðir eru réttindi barna inni í skólunum, að fá gjaldfrjálsan skóla. Þárna erum við bara ósammála. Þarna eru t.d. minn flokkur, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ósammála um nálgunina á þessu en sem betur fer vorum við með öfluga og framsýna verkalýðshreyfingu sem lagði þetta til og ég glaður styð þetta. Ég er stoltur af því og við eigum að halda áfram á sömu braut hvað þetta snertir.“

Viðtalið við Ásmund Einar má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert