Bregður að sjá börn grípa til hrottalegs ofbeldis

Margir urðu vitni að stunguárás­inni.
Margir urðu vitni að stunguárás­inni. mbl.is/Ólafur Árdal

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir hnífstunguárásina við Skúlagötu á Menningarnótt hafa slegið sig verulega illa, líkt og aðra landsmenn.

„Vitaskuld verður manni mjög brugðið þegar við höfum átt því að fagna og eigum því að fagna að geta gengið hér um okkar friðsæla samfélag óhult. Manni bregður sérstaklega við að börn grípa til svona hrottalegs ofbeldis og ráðast að jafnöldum sínum og hvort sem væri gegn einhverjum öðrum,“ segir Guðrún, sem var spurð út í árásina að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Sextán ára piltur situr í gæsluvarðahaldi grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni og er ein stúlka í lífshættu.

Guðrún segir lögregluna hafa vakið máls á auknu ofbeldi barna og ungmenna. Sjálf hafi hún haft áhyggjur af þessu síðan hún tók við embætti og átt í góðum samtölum við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Nefnir hún í þessu samhengi samning um aðgerðir gegn ofbeldi ungmenna sem hún og barna- og menntamálaráðherra skrifuðu nýlega undir. Umtalsvert fé fari í það verkefni.

Samfélagsmiðlar hluti af vandanum

„Það virðist svo vera að það er eitthvað í íslensku samfélagi sem er börnunum okkar fjandsamlegt og ég held að samfélagsmiðlar spili þar eitthvað hlutverk,“ segir Guðrún en bætir við að ekki sé hægt að nefna einn orsakavald. Það sé sameiginlegt verkefni allra, þar á meðal foreldra, heimila, skóla, félagsmiðstöðva, íþróttafélaga, lögreglunnar og stjórnvalda að skera upp herör gegn vandanum.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn á að vera vopnaður í almannarými

Krakkar eru í auknum mæli að bera á sér hnífa og tala um að það sé gert í varnarskyni. Það hlýtur að vera áhyggjuefni?

„Það á enginn að þurfa að vera hér í almannarýminu vopnaður. Það er ekki samfélag sem við viljum. Við þurfum sem samfélag að horfa inn á við. Hvað er það sem veldur því að börnunum okkar líður þetta illa? Við þurfum að taka höndum saman um að vinna gegn þessu,“ svarar ráðherrann og nefnir sams konar þróun í löndunum í kringum okkur, þar á meðal á Bretlandseyjum og í Skandinavíu.

„Þess vegna nefndi ég samfélagsmiðla. Það er hægt að koma upplýsingum á milli fólks með gríðarlegum hraða þannig. Þetta er mikið áhyggjuefni.“

Þarf að byggja upp tengsl og traust

Guðrún heldur áfram og segir afar mikilvægt að byggja upp tengsl og traust við börn og ungmenni í dag til lögreglunnar til að þau finni að þau eigi traustan vin í lögreglunni og geti leitað til hennar.

„Það þýðir að lögreglan þarf að vera sýnilegri í hverfunum og í skólunum. Við erum með öflugt samfélagslöggæsluverkefni eins og hjá lögreglunni á Suðurlandi og fleiri umdæmum. Sömuleiðis á Norðurlandi eystra og hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hafa Svíar til dæmis verið að leggja áherslu á, að auka samfélagslöggæslu, og ég bind miklar vonir við það verkefni,“ segir hún.

Ljósmynd/Colourbox
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert