Búið að „skíra barnið“ og hátíðin hafin

Magnús Stefánsson ræðir við mbl.is um Vitadaga sem standa nú …
Magnús Stefánsson ræðir við mbl.is um Vitadaga sem standa nú yfir í Suðurnesjabæ. mbl.is/Brynjólfur Löve

Vitadagar-hátíð milli vita er nýja nafnið á bæjarhátíð Suðurnesjabæjar sem síðustu sex ár hefur bæjarhátíð sveitarfélagsins verið án nafns.

Innblásturinn kemur frá því að fimm vitar eru í sveitarfélaginu. Hátíðin er hafin og stendur yfir fram til 1. september og er fjölbreytt dagskrá fram undan.

Þetta segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, í samtali við mbl.is.

Áður voru hátíðirnar tvær

„Syðsti vitinn er Stafnesviti og svo eru náttúrulega Garðskagavitarnir tveir að norðanverðu. Hátíðin fer fram á þessu svæði, bæði Sandgerði og Garði,“ segir Magnús.

Fyrr í sumar var sex ára afmæli Suðurnesjabæjar fagnað, en íbúar í Garði og Sandgerði samþykktu að sameina sveitarfélögin í kosningum árið 2017.

Áður en sveitarfélögin voru sameinuð voru þau bæði með eigin bæjarhátíðir. Í Garði var Sólseturshátíðin og í Sandgerði voru Sandgerðisdagar.

Auglýsingin fyrir Vitadaga.
Auglýsingin fyrir Vitadaga. Tölvuteiknuð mynd/Suðurnesjabær

Hápunkturinn á laugardag

Síðustu sex ár hefur bæjarhátíðin í Suðurnesjabæ í raun verið nafnlaus og því gaman að lending sé komin í málið, að sögn Magnúsar.

„Okkur fannst að við þyrftum að skíra barnið eitthvað,“ segir Magnús og hlær.

Hátíðin hófst í gær og verður dagskrá fram á sunnudag en hápunkturinn verður á laugardag.

Þá mun sem dæmi Suðurnesjamaðurinn Róbert Andri stýra brekkusöng, Grétar Örvarsson og Sigríður Beinteinsdóttir spila helstu smelli Stjórnarinnar, rapparinn Birnir tekur nokkur lög sem og Jóhanna Guðrún.

Hátíðarsvæðið færist á milli ára

Þá er fleira fram undan eins og til dæmis bjórhlaup Litla brugghússins, fornbílasýning, lopapeysupartý, hoppukastalar, ball og sölubásar. Hægt er að nálgast dagskránna hér.

Magnús nefnir að hátíðarsvæðið færist á milli Garðs og Sandgerðis á milli ára og núna verður það við Sandgerðisskóla. Í fyrra var hátíðarsvæði á Garðskaga.

„Allir velkomnir,“ segir Magnús að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert