Ekki hefur orðið vart við afpantanir hjá Ferðafélagi Íslands vegna frétta af nóróveirusýkingum að undanförnu samkvæmt upplýsingum frá Ferðafélaginu. Félagið rekur skála víðs vegar um landið þar sem ferðafólk getur fengið gistingu. Útivist, sem rekur skálana í Básum á Goðalandi, frestaði komu hóps í smátíma til að ljúka sótthreinsun og þrifum.
Síðustu vikur hefur nokkuð borið á tilkynningum um bráða magakveisu hjá fólki á ferðalögum innanlands, meðal annars á vinsælum ferðamannastöðum á hálendinu. Nóróveira greindist í tveimur einstaklingum eftir að vart varð við veikindi, en fram kom hjá Guðrúnu Aspelund sóttvarnalækni í frétt RÚV að hópur ferðamanna hefði ekki viljað gefa sýni.
Eftir því sem blaðið kemst næst hefur enginn þurft að leita á sjúkrahús vegna nóróveirunnar í þessum tilfellum.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.