Fjáröflunin gegn stefnu þjóðgarðsins

Fólk sýndi blendin viðbrögð við ákvörðuninni um að hætta sýningunni.
Fólk sýndi blendin viðbrögð við ákvörðuninni um að hætta sýningunni. mbl.is/Rax

Finnur Smári Torfason, formaður björgunarfélags Hornafjarðar, segir að ástæðan fyrir því að félaginu hafi ekki verið veitt leyfi til að halda árlegu flugeldasýninguna á Jökulsárlóni í ár sé meðal annars sú að Vatnajökulsþjóðgarði fannst sýningin fara gegn stefnu þjóðgarðsins.  

Undanfarin ár hefur verið haldið flugeldasýningu á Jökulsárlóni, í umsjón björgunarfélags Hornafjarðar, en í ár fékk félagið ekki leyfi fyrir sýningunni. Sýningin hefur verið ein stærsta fjáröflun félagsins og því mikill missir. 

„Þjóðgarðinum finnst þetta ekki vera stefna sem passar innan þjóðgarðsins og þjóðgarðurinn hefur svo sem varað okkur við því að við fengjum neitun á endanum. Þannig við höfum svo sem vitað að þessi neitun væri á leiðinni,“ segir Finnur.

Mjög blendin viðbrögð

Að sögn Finns hafa viðbrögð fólks við ákvörðuninni verið mjög blendin.  

„Það eru mjög mismunandi skoðanir, eins og gengur og gerist. Það er alltaf að verða stærri og stærri hópur sem að er ekki hrifinn af flugeldum á meðan öðrum finnst flugeldar frábærir,“ segir Finnur.

Spurður hvort björgunarfélagið hafi fundið nýja leið til fjáröflunar segir Finnur félagið skoða ýmsa möguleika, m.a. í samstarfi við þjóðgarðinn.

Góð aðstaða við Jökulsárlón

Hann nefnir að til skoðunar sé að halda flugeldasýningu annars staðar.

„Það er einn af þeim möguleikum sem við erum að skoða, en það eru ekki margir staðir sem að bjóða upp á svona mikið af bílastæðum eins og Jökulsárlón, sem er kannski vandamálið,“ útskýrir Finnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka