Helgi Björnsson, jöklafræðingur og prófessor emeritus við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, telur stórhættulegt að bjóða upp á ferðir í íshella yfir sumartímann. Hellarnir taki stöðugum breytingum yfir sumarið þegar jökullinn er á meiri hreyfingu. Bíða ætti fram á haust með að fara í slíkar ferðir.
„Þá er kannski hægt að fara þarna inn og þannig hafa nú þessar ferðir verið til að skoða þessa íshella. Til skamms tíma var þetta bara gert á haustin, í október eða nóvember þegar bráðnun er búin og komin kyrrð yfir þetta og leysingar búnar,“ segir Helgi í samtali við Morgunblaðið.
Einn lést og annar slasaðist alvarlega þegar ísfarg féll á ferðamenn í íshellaskoðun í Breiðamerkurjökli á sunnudag. Maðurinn sem lést og konan sem slasaðist í íshellinum voru par frá Bandaríkjunum. Maðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi en konan flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild í Fossvogi. Er hún ekki talin í lífshættu.
Segir Helgi banaslysið sem varð á sunnudag staðfesta lífshættuna sem fylgi íshellaferðum að sumri til.
Björgunaraðgerðum lauk í gær en talið var að tveir til viðbótar hefðu lent undir ísfarginu. Leit hafði staðið yfir síðan seinni part sunnudags.
Ferðaþjónustufyrirtækið sem skipulagði ferðina á Breiðamerkurjökul veitti lögreglu rangar upplýsingar um fjölda ferðamanna í hópnum. Í fyrstu var talið að 25 manns hefðu verið í ferðinni þegar raunverulega var um 23 að ræða.
Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að fjöldi þeirra sem hafi komið að björgunaraðgerðunum sé hátt í 250. Þá segir lögreglan að mikið þrekvirki hafi verið unnið á vettvangi. Brotið hafi verið niður gífurlegt magn af ís, meira og minna með handafli.
Ferðaþjónustufyrirtækið sem stóð fyrir ferðinni er í eigu tveggja Bandaríkjamanna og á vefsíðu félagsins stærir það sig af því að vera eitt af fáum fyrirtækjum á Íslandi sem bjóða upp á íshellaferðir á sumrin.
Unnið er nú að rannsókn á tildrögum slyssins en lögreglan á Suðurlandi segir rannsóknina á frumstigi. Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn segir ólíklegt að einhver verði sóttur til saka í málinu.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.