„Gefið í skyn að þetta sé öruggt“

Frá aðgerðum á Breiðamerkurjökli í gær.
Frá aðgerðum á Breiðamerkurjökli í gær. Ljósmynd/Landsbjörg

„Það er ekki hægt að kalla þetta annað en tifandi tímasprengju,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um banaslysið í Breiðamerkurjökli.

Magnús Tumi skrifaði skýrslu, ásamt Finni Pálssyni og Jóni Gauta Jónssyni, fyrir sjö árum síðan um áhættumat vegna ferða í íshella fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.

Þá notuðu þeir litina grænan, gulan og rauðan til þess að lýsa því við hvaða aðstæður hættulegt væri að fara í íshellana.

Grænn þýddi að hellirinn væru þokkalega öruggur, gulur að það væri nokkur hætta og kallaði á sérstaka aðgæslu fararstjóra og rauður þýddi mikil hætta, ferðir um helli bannaðar. Allt sumarið var merkt rautt hjá þeim.

Kallar þetta forkastanleg vinnubrögð

Magnús Tumi segir það vera eitt ef einstaklingar ákveða sjálfir að heimsækja íshelli að sumarlagi, en að það sé allt annað að selja fólki ferðir þar sem áhættan er mikil. Ef svoleiðis sé gert dag eftir dag aukist líkurnar á að eitthvað komi fyrir.

„Þá er gefið í skyn að þetta sé öruggt sem þetta er alls ekki, svo í mínum huga á að banna þetta,“ bætir hann seinna við.

Prófessorinn bendir einnig á að uggur hafi verið í heimafólki yfir svona háttalagi og segir hann sjálfur þetta vera forkastanleg vinnubrögð.

Hann segir þá sem skrifuðu skýrsluna fyrir sjö árum ekki hafa haft hugmyndaflugið til þess að láta sér detta í hug að fólk myndi fara að selja ferðafólki ferðir í íshella að sumarlagi.

Banaslys varð á Breiðamerkurjökli fyrir tveimur dögum síðan þar sem maður lést og kona hans slasaðist alvarlega í íshelli.

Vinsælar íshellaferðir hættulegar

Magnús Tumi segir vinsælu íshellaferðirnar í Kötlujökul einnig vera hættulegar að sumarlagi en að þar sé til viðbótar flóðhætta og lítill viðbragstími.

Það megi alveg fara í skoðanaferðir á jökla en að það sé of hættulegt að fara ofan í hellana um sumar.

Prófessorinn bendir þó á í lokin að hellar eins og manngerði íshellinn í Langajökli teljist ekki hættulegir að sumarlagi þar sem hann er til dæmis grafinn í jökulinn hátt uppi. Um hann sé jafnframt ekki vatnsrennsli og að vandlega sé fylgst með þróun hans af rekstraraðilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert