Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, segir að ríkisstjórnin hafi ákveðið á fundi í morgun að skipaður verði starfshópur úr fjórum ráðuneytum sem muni fara yfir öryggismál í jöklaferðum og skoða hvað megi bæta og hvað hafi farið úrskeiðis í slysinu á Breiðamerkurjökli um nýliðna helgi.
„Þetta var auðvitað hörmulegt slys og það er mjög alvarlegt þegar fólk er að heimsækja okkur lendir í svona atburði. Nú er verið að rannsaka þetta slys og við þurfum að sjá hvað kemur út úr þeirri rannsókn og hvað gerðist,“ sagði Lilja við mbl.is eftir fund ríkistjórnarinnar í morgun þar sem slysið á Breiðamerkurjökli var eitt þeirra mála sem rætt var á fundinum.
Lilja segir það grafalvarlegt að talningin hafi ekki staðist vegna þess að um 200 manns hafi verið kallaðir út til leitar við mjög erfiðar aðstæður og síðan hafi komið í ljós sem betur fer að það hafi ekki verið fleiri undir ísnum.
„Þetta kallar á við þurfum að fara betur yfir þessi mál. Nú er það svo að þjóðgarðurinn er undir umhverfisráðuneytinu sem veitir leyfi fyrir þessum ferðum á jöklinum og það þarf að skoða til að mynda hvers vegna var ekki betur farið yfir mat skýrslu okkar helstu jarðvísindamanna á þeirri hættu að fara í jöklaferðir á sumri til,“ segir ráðherrann.
Kæmi til greina að setja lög um það að banna ferðir á jökla og íshella að sumri til?
„Ég held að það sé mikilvægast að sjá hvað kemur út úr þessari rannsókn og hvað gerðist áður en við förum að draga slíkar ályktanir. Ráðuneytisstjórahópurinn á að skila okkur sínum tillögum eins fljótt og auðið er,“ segir Lilja.
Hún segir að lögð hafi verið sérstök áhersla á öryggismálin í nýrri ferðamálastefnu og að Ferðamálastofa hafi bætt við stöðugildi sem fjallar sérstaklega um öryggismál.
„Þegar svona hörmuleg slys eiga sér stað þá hefur það áhrif á orðspor og á aðila sem starfa á þessu svæði. Það er svo mikilvægt að halda vel utan um þetta til þess að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir svona slys,“ segir Lilja.
Lilja segir að eitt af því sem mögulegt er að gera sé að setja reglugerð þar sem kveðið er á um að fara í frekara áhættumat en það sé þjóðgarðsins að gera það. Hann veiti leyfið.
Lilja verður á málþinginu ferðamálastefna, rannsóknir og þróun ferðaþjónustu í Háskóla Íslands í dag.
„Á málþinginu munum við fara yfir þessa heildarsýn sem er ferðaþjónusta til ársins 2030 þar sem við erum að leggja áherslu á sjálfbærni, verðmætasköpun og að við séum góðir gestgjafar. Góður gestgjafi hugsar vel um sína gesti og gætir eins mikið af öryggismálum gestsins eins og honum frekast unnt.“
Lilja segir að slysin verði því miður og aldrei sé hægt að koma í veg fyrir þau öll en það eigi alltaf að stefna að því að umgjörðin sé sem tryggust.