Hæsti hitinn sem mældist í Reykjavík þetta sumar var aðeins 17,4 gráður. Náði hitinn því marki þann 15. júlí og svo aftur 3. ágúst.
Á sama tíma hafa liðið 24 dagar þar sem hiti mældist yfir 20 gráðum einhvers staðar á landinu.
Liðu sjö þannig dagar í júní, fimmtán í júlí og tveir það sem af er ágústmánuði.
Hitinn í sumar náði mest 27,5 gráðum. Var það á Egilsstaðaflugvelli þann 14. júlí.
Í skriflegu svari frá Kristínu Björg Ólafsdóttur, sérfræðingi á sviði veðurfarsrannsókna á Veðurstofu Íslands, segir hún 20 gráða dagana frekar fáa þetta árið.
Ef horft er allt aftur til ársins 2010 er 2024 árið með fæstu 20 gráða dagana, eða 24 talsins eins og áður sagði. Þar á eftir kemur árið 2022, en þá voru dagarnir 27.
Árið 2021 var með flestu dagana þar sem hitastigið náði 20 stigum og skrifar Kristín Björg:
„Þá ríktu óvenjuleg hlýindi á Norður- og Austurlandi í júlí og ágúst, þar sem hiti mældist yfir 20 stig dögum saman,“ skrifar Kristín Björg.
Dagarnir eru taldir frá 1. júní til 31. ágúst og því tekur hún fram að enn geti bæst í.