Höfum nægan tíma til að bregðast við

„Við höfum kortlagt alla þessa helstu innviði sem geta verið í hættu og það má segja að fyrstu viðbrögð við þessu eldgosi hafi verið þau að við vörpuðum öndinni aðeins léttar fyrir þær sakir að við sáum ekki beina ógn við Grindarvíkurbæ eða orkuverið,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra spurður hvort ástæða sé til þess að huga að innviðum á svæðinu vegna eldgosins sem er í gangi.

Hann segir verið sé að fylgjast vel með eldgosinu sem er það stærsta sem hefur sést á Sundhnúkagígaröðinni til þessa.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eyþór

Metur ekki sem ógn að svo stöddu

Aðspurður telur hann ólíklegt eins og mál standa núna að hraunið nái að ógna vatnsbólinu eða Reykjanesbrautinni. En ef sú sviðsmynd kæmi til raunar hefðu viðbragðsaðilar tíma til að vernda helstu innviðina.

„Við höfum þess vegna tímann aðeins betur fyrir framan okkur hvað þetta snertir þannig að þetta er mjög háð því hversu lengi gosið kemur til með að vara. Þessi hraunflæðalíkön eru búin að benda okkur á helstu innviði sem að þarf að huga að.“

Aðspurður segir hann varnargarða eða kælingu hraunsins vera mögulega úrræði fyrir þeirri sviðsmynd.

Forvarnir verða vera til staðar

En nú eru framkvæmdir við suðurnesjalínu, telur þú ráðlagt að hafa varalínu svona nálægt hinni?

„Það er eitthvað sem við þurfum að fá góða ráðgjöf um, á hvaða marki við getum gert ráðstafanir fyrirfram eins konar forvarnir að það sé tekið til þess við uppbyggingu á slíkri línu að hún geti staðið á stað þar sem að í framtíðinni kunni að renna hraun.“

„Það er hægt að gera styrkingar á slíkum svæðum og það verður að nota hraunflæðilíkön og ráðgjöf okkar vísindamanna til að hanna slík mannvirki. Það er í mínum huga augljóst að hugsa til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert