Hroðaleg þróun sem þarf að bregðast við

Þrjú ungmenni urðu fyrir stunguárás á menningarnótt.
Þrjú ungmenni urðu fyrir stunguárás á menningarnótt. mbl.is/Ólafur Árdal

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir mikilvægt að beita öllum tiltektum ráðum til þess að koma í veg fyrir að hnífstunguárásir verði veruleiki sem landsmenn fari að venjast.

„Þetta er hroðaleg þróun sem að verður að bregðast við. Maður er auðvitað sleginn yfir að ungir krakkar séu bæði vopnuð og að beita hnífum í miðborginni,“ segir Bjarni Benediktsson í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Þrjú ungmenni urðu fyrir stunguárás við Skúlagötu á laugardagskvöldið og voru öll flutt á slysadeild og er ung stúlka í lífshættu. Sextán ára piltur var úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrr í vikunni til 30. ágúst vegna árásarinnar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að grípa snemma inn í

„Við höfum séð og rætt í ríkisstjórninni greiningar á ofbeldishegðun barna sem er að færast í vöxt því miður. Það eru merki um að brot séu að verða alvarlegri. Þetta er svo sem ekki almenn þróun hjá ungmennum heldur tiltölulega þröngur hópur sem virðist vera farin að fremja oftar brot og alvarlegri.“

Hann bendir á velsældaráherslur mennta- og barnamálaráðherra sem lúta að því að finna þennan þrönga hóp ungmenna snemma og bregðast við með samvinnu allra aðila, sem geta haft áhrif á fyrri stigum málsins.

„Það skipti máli að taka eftir því og grípa inn í þegar við tökum eftir að börn og ungmenni eru ekki að finna sig í skólakerfinu, eru ekki virk í félagsstarfi, eru í hættu á að vera félagslega jarðarsett og síðan leiða út í afbrot. Velsældar áherslur ráðherrans hafa allar snúið að því að finna þessi tilvik snemma“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert