Íshellaskoðanir á sumartíma ekki skynsamlegar

Ferðamálastjóri segir öryggismál alltaf eiga að vera í öndvegi.
Ferðamálastjóri segir öryggismál alltaf eiga að vera í öndvegi. mbl.is/Sigurður Bogi

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri segir það blasa við að ekki sé skynsamlegt að bjóða upp á íshellaskoðanir á sumartíma. Hann segir Ferðamálastofu skoða hvort að viðbragð þegar ís­farg féll á ferðamenn í ís­hella­skoðun í Breiðamerk­ur­jökli hafi verið í samræmi við öryggisáætlun.

„Það blasir við að það er ekki skynsamlegt að bjóða upp á íshellaskoðanir á sumartíma,“ segir Arnar. Hann segir að bæði banaslys sunnudagsins og viðvaranir vísindamanna vera því til staðfestingar.

Einnig flóðahætta í íshellum

Burt séð frá þeirri hættu sem stafar af ísfalli á sumartíma kveðst Arnar hafa fengið send gögn frá vísindamönnum hjá Háskóla Íslands sem sýna fram á flóðahættu í íshellum og myndbandsupptöku sem sýnir íshelli flæða.

„Það er í ofanálag önnur áhætta sem hefur ekki verið mikið í umræðunni.“

Spurður að því hvort auka þurfi eftirlit með ferðaþjónustufyrirtækjum enn frekar segir hann að verið sé að skoða það og að eftirlit hafi verið aukið á síðustu árum.

„Þetta er eitt af hlutverkum Ferðamálastofu að hafa eftirlit með leyfisskyldri starfsemi þar á meðal öryggisáætlun og við höfum verið að auka þetta eftirlit.“

Hann nefnir í því samhengi nýtt stöðugildi öryggisfulltrúa, sem var kynnt undir lok síðasta árs.

Arnar kveðst hafa fengið send gögn frá vísindamönnum hjá Háskóla …
Arnar kveðst hafa fengið send gögn frá vísindamönnum hjá Háskóla Íslands sem sýna fram á flóðhættu í íshellum og myndbandsupptöku sem sýnir íshelli flæða. Ljósmynd/Tryggvi Már Gunnarsson

Hvetja til yfirferðar í heild sinni

„Við höfum haft samband við ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu og kallað eftir öryggisáætlun þeirra og athugum núna hvort að viðbrögð þeirra hafi ekki verið í takt við áætlanir.“

Hann segir að í ljósi banaslysins verði hvatt til yfirferðar á öryggisáætlana í heild sinni.

Verið er að skoða úrbætur og Arnar segir Ferðamálastofu og Vatnajökulsþjóðgarð bera saman bækur.

„Það er ótvíræður vilji allra sem koma að eftirliti og leyfisveitingum til rekstraraðila að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að draga úr líkum á slysum sem þessum í framtíðinni,“ segir hann.

Hann segir að Ferðamálastofa muni beita sér fyrir auknu samtali á milli allra hluteigandi um hvernig hægt verði að bæta öryggismál enn frekar.

„Öryggismál eru mál sem eiga alltaf að vera í öndvegi. Við erum aldrei búin með þau. Þetta er stöðug vinna.“

Lögreglurannsókn skeri úr hvort grípa hefði mátt fyrr til

Íshellaferðir eru ekki nýjar af nálinni og hafa áður verið á sumartíma. Hefði mátt grípa fyrr inn í?

„Nú fer lögreglurannsókn í gang og við verðum að bíða og sjá hvað kemur úr henni hvað þetta varðar.“

Hann segir það til skoðunar að gera ríkari kröfur til rekstraraðila sem starfa á svæðinu og þá einkum með því að horfa til þekkingar og hæfni leiðsögumanna sem vinna þar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert