Konan, sem bjargað var úr Silfru á Þingvöllum eftir að hafa misst meðvitund, var í köfunarferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækis. Leiðsögumaður brást skjótt við eftir að ljóst var að ekki var allt með felldu.
Þetta segir Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, í samtali við mbl.is.
Eins og mbl.is greindi fyrst frá þá var kona á sjötugsaldri dregin upp úr Silfru meðvitundarlaus upp úr klukkan 15 í dag. Fékk hún strax aðhlynningu og komst til meðvitundar, en var þó send með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann til nánari skoðunar.
„Það var kona í köfun og það kom eitthvað upp á, henni svelgdist held ég á eða eitthvað og missti tímabundið meðvitund,“ segir Einar.
Konan var í hópi ferðamanna á vegum ferðaþjónustufyrirtækis.
„Hann [leiðsögumaðurinn] tekur hana upp þegar hann sér – þetta bara gerist mjög snöggt. Leiðsögumaðurinn kemur henni á land og nærstaddir aðstoða strax og svo komum við öll. Við vorum 10 manns í þessu,“ segir Einar.
Hann man ekki til þess að svona alvarlegt atvik hafi átt sér stað í Silfru á þessu ári þó oft komi upp minniháttar atvik.
Hann segir að sjúkraflutningamaður sé ávallt á Þingvöllum og sinnti hann konunni.
„Við vorum með mjög snöggt viðbragð þannig þetta fór vel,“ segir Einar.