Leita að einstaklingum með köngulóafælni

Sálfræðiráðgjöf háskólanema býður upp á meðferð fyrir köngulóafælni.
Sálfræðiráðgjöf háskólanema býður upp á meðferð fyrir köngulóafælni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sálfræðiráðgjöf háskólanema, sem býður upp á sálfræðiaðstoð fyrir stúdenta Háskóla Íslands og börn þeirra, leitar nú að einstaklingum sem vilja sigrast á köngulóafælni.

Meðferðin fer fram á háskólasvæðinu og er ætlað að veita einstaklingum nauðsynlega aðstoð við að vinna bug á ótta sínum. 

Í upphafi haustmisseris munu meistaranemar fá þjálfun í meðferð við einfaldri fælni, þar sem köngulóafælni verður í brennidepli. Af þeim sökum óskar Sálfræðiráðgjöfin sérstaklega eftir nemendum HÍ eða börnum þeirra, átta ára og eldri, sem glíma við slíka fælni.

Meðferðin stutt

Á vefsíðu háskólans er sagt að inngripið sé stutt og samanstendur af rúmlega 40 mínútna matsviðtali og meðferð sem stendur í 90-180 mínútur í einni lotu. Það er pláss fyrir tuttugu í þessa meðferð. 

Háskólanemar og foreldrar barna með köngulóafælni eru hvattir til að hafa samband við sálfræðiráðgjöf háskólanema til að nýta sér þetta tækifæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert