Ekki er búið að bera kennsl á lík manns sem fannst látinn í fjörunni á Álftanesi. Lögreglan hefur þó grun um hver maðurinn sé.
Þetta segir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
„Við höfum grun um hvaða maður þetta er,“ segir Sævar en bætir við að ekki sé búið að staðfesta hver maðurinn er.
Hann segir að gangandi vegfarandi hafi komið að líkinu fyrir hádegi, en göngustígur er meðfram fjörunni.
„Þetta er ekki rannsakað sem sakamál,“ segir Sævar aðspurður.
Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu.