Magnús Tumi: Innviðir ólíklega í hættu

Nyrsti hluti sprungunnar á föstudagsmorgun, um 12 klukkustundum eftir að …
Nyrsti hluti sprungunnar á föstudagsmorgun, um 12 klukkustundum eftir að eldgos braust út. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að ef eldgosið á Reykjanesskaga hegði sér eins og fyrri gos, sé ólíklegt að það þurfi að hafa áhyggjur af innviðum eða vegum. Þó sé ekki öruggt að spá fyrir um það. 

„Við getum ekki gefið okkur neitt um að þetta hegði sér alltaf nákvæmlega eins, en þetta er líklegasta sviðsmyndin,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

Nú gýs mun norðar á sprungunni við Sundhnúkagígaröðina en í fyrri gosum og rennur hraun í norður, austur og vestur. Hraunið sést því vel frá Reykjanesbrautinni.

Magnús Tumi telur að kvikan hafi leitað í norður vegna þess að hún leitaði í suður í fyrri gosum. Þannig hafi sprungan þrengst sunnan megin og því hafi verið auðveldara fyrir hana að brjótast upp á yfirborðið í norðri.

Magnús Tumi um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar er flogið var …
Magnús Tumi um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar er flogið var yfir gosstöðvarnar fimm klukkustundum eftir að eldgosið hófst. mbl.is/Eyþór Árnason

Fimmfalt rennsli Þjórsár

Eldgosið sem braust út 22. ágúst er stærsta gosið á Sundhnúkagígaröðinni en dregið hefur hægt og rólega úr krafti þess. Magnús Tumi segir að í upphafi hafi rennsli kviku verið á við um fimmfalt rennsli í Þjórsá.

Nú hafi þó dregið mikið úr því og ekki sé lengur hægt að kalla þetta stórt gos þar sem frárennslið sé aðeins um eitt eða tvö prósent af því sem það var til að byrja með.

„Þetta fylgir sama fasa og hin gosin og þá er framrás hraunsins mjög hæg,“ segir Magnús Tumi og bætir við að því meira sem dregur úr, því meira fari hraunið að byggjast upp nær gígunum og þá fari það yfirleitt ekki lengra.

Þó tekur hann fram að enn sé ekki alveg komið að því.

Hann segir ólíklegt vera að hraunið muni ná eitthvað áleiðis að Reykjanesbraut eða öðrum innviðum ef þetta gos hegði sér eins og þau fyrri.

Rennsli kviku er mun minna nú en í upphafi gossins.
Rennsli kviku er mun minna nú en í upphafi gossins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert