Fjöldi hópa hefur sýkst af nóróveiru á ferð sinni um hálendi Suðurlands nýverði. Í tilkynningu frá landlækni segir að vonir hafi staðið til að hópsýkingarnar væru yfirstaðnar en í gær bárust fréttir um tvo veika einstaklinga í Hrafntinnuskeri.
„Staðfest hefur verið að yfir sextíu manns veiktust í tengslum við ferðalag eftir Landmannaleið og að yfir fjörutíu hafa veikst nýlega á Laugaveginum. Fjöldi þeirra sem veiktist er þó líklega töluvert hærri þar sem fæstir ferðamenn tilkynna veikindi sín til yfirvalda,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur sömuleiðis fram að nóraveira hafi greinst í alls 11 sýnum frá ferðalöngum á svæðinu.
Þá segir að nóróveira sé afar smitandi og því sé mikilvægt grípa strax til aðgerða til þess að hefta útbreiðslu veirunnar milli manna og út í umhverfið
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur haft samband við staðarhaldara í skálum á þeim ferðamannastöðum þar sem sýkingar hafa komið upp og gefin hafa verið út tilmæli um að sjóða allt neysluvatn og að þrífa alla yfirborðsfleti og búnað í skálunum með viðeigandi aðferðum.
Heilbrigðiseftirlitið hefur einnig tekið sýni til rannsókna á neysluvatni í skálum til þess að ganga úr skugga um að vatnsból séu ekki menguð af saurgerlum eða mögulega nóróveiru.
Tekin hafa verið sýni úr skálum á Rjúpnavöllum, Hólaskógi, Áfangagili, Landmannahelli, Landmannalaugum, Hrafntinnuskeri og Álftavatni en áform eru um sýnatökur í Hvanngili, Emstrum og Básum.
Sýnin sem tekin voru á Rjúpnavöllum og Landmannahelli hafa þegar verið greind og kom enginn nóróveira í ljós í þeirri rannsókn.