Vettvangsrannsókn enn í gangi og beðið niðurstöðu krufningar

Frá Neskaupsstað.
Frá Neskaupsstað. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er ennþá verið að afla gagna og vinna úr þeim. Sú vinna gengur vel en tekur einhvern tíma,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, í samtali við mbl.is en lögreglan rannsakar lát hjóna á áttræðisaldri í Neskaupsstað á fimmtudaginn.

Maður sem er grunaður um að hafa orðið hjónunum að bana var handtekinn í Reykjavík og var hann úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald og einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði. Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út á föstudaginn. Kristján Ólafur segir búið sé að taka skýrslu af þeim grunaða.

Spurður hvort liggi fyrir játning þess grunaða segist Kristján ekki vilja tjá sig neitt um það hvað kom fram í yfirheyrslunni.

„Það verður skoðað þegar nær dregur hvort gerði verði krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum,“ segir Kristján en samkvæmt heimildum mbl.is hefur hinn grunaði glímt við andleg veikindi.

Skoðað hvort eða hvaða vopni hafi verið beitt

Kristján Ólafur segir eitt af því sem verið er að skoða sé hvort eða hvaða vopni hafi verið beitt. Hann segir að vettvangsrannsókn sé enn í gangi og þá sé beðið niðurstöðu krufningar. Hann vonast eftir því að bráðabirgðaniðurstaða krufningarinnar liggi fyrir fljótlega. Kristján segir ennfremur að áfram sé verið að ræða við vitni sem varpað geti einhverju ljósi á tímalínu og fleiri hluti.

Spurður um möguleg tengsl hins grunaða og hjónanna segir Kristján Ólafur:

„Rannsóknin miðar meðal annars að því að kanna með tengsl þeirra á milli. Við höfum ekki fundið áþreifanlegar vísbendingar um að þau hafi verið mikil eða djúp. Það er ekki að sjá mikil tengsl en við erum enn að reyna að átta okkur á því hvort þau voru einhver yfir höfuð,“ segir Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert