„Við viljum fá á yfirborðið allt sem að getur komið til álita um sérstök viðbrögð stjórnvalda vegna þessa atburðar,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra eftir fund ríkisstjórnar í morgun, en þar var fjallað um banaslysið sem varð á Breiðamerkurjökli um liðna helgi.
Ákveðið var á fundinum að koma á fót starfshópi fjögurra ráðuneyta með ráðuneytisstjórum til að tryggja að litið sé til allra hliða málsins. Starfshópurinn heyrir undir forsætis-, dómsmála-, ferðamála-, og umhverfisráðuneytis.
Björgunaraðgerðum við Breiðamerkurjökul lauk á fjórða tímanum í gær eftir að í ljós kom að enginn reyndist vera undir ísfarginu sem talið var að hefði fallið á fjóra ferðamenn.
Leit hafði staðið yfir síðan seinnipartinn á sunnudag eftir að lögreglunni barst tilkynning um að íshellir í Breiðamerkurjökli hefði hrunið. Karlmaður frá Bandaríkjunum lést og unnusta hans slasaðist. Talið var að tveir til viðbótar hefðu lent undir ísfarginu en svo reyndist ekki vera.
Karlmaðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi á sunnudag en konan var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild í Fossvogi þar sem hún liggur enn. Líðan hennar er stöðug og er hún ekki talin í lífshættu.
Hvernig finnst þér að verið sé að fara svona ferðir að sumarlagi?
„Það kemur mér á óvart að það hafi áður í sérstöku áhættumati verið varað við því en ekki gripið til aðgerða. Þetta er það sem við verðum að skoða betur og skilja. Það er tilgangurinn með þessari vinnu sem við erum að setja núna að fá svör við slíkum spurningum,“ segir Bjarni.
Spyr þá Bjarni hvers vegna starfsleyfi hafi verið gefið út ef áhættumat hefði varað við hættu.
„Við fyrstu sýn virðist sem að við séum með ágætis regluverk varðandi tryggingar, fræðslu, öryggisráðstafanir og aðra slíka hluti. Það er síðan þjóðgarðurinn sem veitir starfsleyfi og mér finnst vera út af standandi spurningar hvers vegna leyfið er að fara á tímum sem áhættumat hefði sagt að væri ekki án áhættu.“