Ásmundur: Allir tilbúnir að spýta í ef þarf

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég held að það sé að sýna sig að það sé mjög mikilvægt að fara í aðgerðirnar sem við kynntum í vor af krafti og fylgja þeim eftir,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráherra, inntur eftir því hvort hnífstunguárásin á Menningarnótt, þar sem allir hluteigandi voru undir lögaldri, kalli á sérstakar aðgerðir innan ráðuneytisins.

Ásmundur vísar þar í fjórtán aðgerðir gegn ofbeldis meðal barna sem kynntar voru í júní en í þeim er lögð rík áhersla á samvinnu þvert á kerfi.

Vinnan tekur tíma

„Ég og dómsmálaráðherra kynntum á annan tug aðgerða á vordögum. Þær eru að komast á stað og komast á fullt og við erum nú þegar búin að gera samninga um eflingu samfélagslöggæslu,“ segir Ásmundur og bætir við:

„Þannig við erum að taka þetta mjög alvarlega en það er gríðarlega mikilvægt að allir aðilar komi að þessu og núna fer sú vinna á fullt.“

Hann segir þó að vinnan muni taka tíma en gert sé ráð fyrir fyrstu stöðuskýrslu vegna aðgerðaáætlunarinnar á haustdögum.

Vinnan fari nú á fullan kraft

Spurður hvort ahnífstunguárásin á Menningarnótt sé ekki tilefni til þess að bregðast enn frekar við segir Ásmundur:

„Það er það sem vinnan mun jafnframt gera ráð fyrir. Nú fer þessi vinna á fullan kraft, að fylgja þessum aðgerðum ólíkra aðila eftir. Síðan er markmiðið að reglulega verði birtar stöðuskýrslur með þá frekari tillögum.

Ég held að það sé skynsamlegt að allir aðilar sem komi að málefnum barna fylgi þessu fast á eftir og jú, það kann að vera að það muni þurfa að grípa til frekari aðgerða en þá munu þær koma fram í þessari vinnu.“

„Ég held að allir séu tilbúnir til að spýta í ef þarf en þá þarf að skoða hvar og með hvaða hætti,“ segir Ásmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert