„Auðvitað er verið að leggja niður námið“

Íris Ragnarsdóttir Pedersen gefur ekki mikið fyrir fullyrðingu menntamálaráðuneytisins.
Íris Ragnarsdóttir Pedersen gefur ekki mikið fyrir fullyrðingu menntamálaráðuneytisins. Samsett mynd

Íris Ragnarsdóttir Pedersen, sem situr í stjórn Félags fjallaleiðsögumanna og kennir fjallamennsku í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, segir ekki hægt að túlka niðurskurð á fjárveitingu frá menntamálaráðuneytinu til námsbrautar í fjallamennsku við skólann á annan hátt en að verið sé að leggja niður námið.

Íris vakti athygli inni á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar í dag, þar sem hún sagði að til stæði að leggja niður eina fjallamennskunámið á Íslandi, eins og mbl.is greindi frá.

Ráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í kjölfar þessa þar sem fullyrt er að hvorki hafi verið lagt til né þess krafist að fella niður námið. 

Segjast ekki leggja niður námsbrautir 

Íris gefur ekki mikið fyrir það og segir að þó ráðuneytið taki enga formlega ákvörðun um að leggja niður námið hafi tilkynning um að framlög yrðu skrúfuð niður verið borin upp á fundi síðastliðinn mánudag, daginn eftir banaslys á Breiðamerkurjökli.

Því sé náminu sjálfhætt að óbreyttu. 

„Menntamálaráðuneytið segist ekki leggja niður námsbrautir í menntastofnunum en þau segjast ekki ætla að veita meira fjármagn til að reka námið. Þar liggur í raun munurinn. Auðvitað er verið að leggja niður námið ef skólanum er ekki veitt fé til að reka námið,“ segir Íris.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur tjáð sig um öryggi á jöklum …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur tjáð sig um öryggi á jöklum að undanförnu. mbl.is/María Matthíasdóttir

Skólinn í skuld við ríkið 

Hún segir það hafa verið kostnaðarsamt að búa til nám í fjallamennsku.

Skólinn sé í stórri skuld við ríkið og að sögn hennar var það á þeirri forsendu sem ráðuneytið ákvað að veita ekki frekara fjármagn til að halda áfram með námsbrautina. 

„Við höfum á undanförnum árum barist fyrir því að fá þetta nám samþykkt af ráðuneytinu. Það er því svolítið sorglegt að núna þegar það er alveg að hafast þá getur einhver annar skóli, sem er ekki í jafn slæmri skuldastöðu og við, tekið við keflinu og stofnað sína námsbraut.“

Ráðuneytið hvatti til stofnunar einkaskóla

Hún segir að ráðuneytið hafi sent þau skilaboð að það vilji að stofnaður verði einkaskóli utan um námið. Sjálfseignarstofnun sem fari með fjallamennskunám.  

„Núna er námið á viðráðanlegu verði og skólagjöld eru 150 þúsund krónur fyrir árs nám sem er 60 einingar. Framhaldsskólum er ekki heimilt að rukka hærri skólagjöld. En með stofnun einkaskóla verða skólagjöldin miklu hærri. Störf í ferðaþjónustu eru ekki hálaunastörf og það er snúin staða þegar þú þarft að skuldsetja þig til að verða fjallaleiðsögumaður,“ segir Íris. 

Þá segir hún að skilaboðin hafi verið þau að fólk sem staðið hefur að námsbrautinni eigi að stofna hinn nýja skóla í sjálfboðastarfi.

„Og skuldsetja okkur fjárhagslega, til að geta rekið nám í ferðaþjónustu til að bæta öryggi og fagmennsku í greininni.“

Bætir hún því við að hún telji slíkt í hrópandi mótsögn við það sem Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, hefur talað um undanfarna daga en Lilja hefur rætt um að gæta þurfi betur að öryggi í jöklaferðamennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert