Hafnarfjarðarbær hefur gengið frá kaupum á nýju húsnæði fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar í verslunarmiðstöðinni Firði.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri 220 Fjarðar, Haraldur Reynir Jónsson stjórnarformaður og Benedikt Steingrímsson stjórnarmaður undirrituðu kaupsamninginn á fimmta tímanum í dag.
Stefnt er á að nútímavæða 102 ára gamla bókasafn bæjarins meðal annars með því að flytja það í nýtt húsnæði og laga það að breyttum kröfum og þörfum samfélagsins.
Stefnt er á að húsnæðið verði afhent bókasafninu snemma árs 2026.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Húsnæðið er um 1.700 fermetrar að stærð. Þar af eru um 550 fermetrar í nýbyggingu Fjarðar við Strandgötu 26-30. Breytingarnar og uppbyggingin við Fjörð eru mestu framkvæmdir sem átt hafa sér stað í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Miklar breytingar munu eiga sér stað í Firðinum næstu árin þar sem 220 Fjörður byggir þar 9.000 fermetra.
Þá verða byggðar 18 hótelíbúðir, 31 lúxusíbúð, verslunarrými og bílastæðakjallara. Í húsnæðinu verður einnig matvöruverslun og mathöll.