Fylgi Framsóknar hríðfallið frá kosningum

Einar Þorsteinsson er oddviti Framsóknar og borgarstjóri Reykjavíkur.
Einar Þorsteinsson er oddviti Framsóknar og borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Brynjólfur Löve Mogensson

Fylgi Framsóknarflokksins hefur hríðfallið í Reykjavík frá síðustu sveitarstjórnarkosningum samkvæmt nýrri könnun Maskínu.

Flokkurinn fékk um 19% atkvæða í síðustu kosningum en mælist nú með 4% fylgi, sem þýðir að flokkurinn hefur tapað um 15 prósentustigum frá síðustu kosningum. 

Fylgi Framsóknar hefur þó mælst í borginni um 4% síðan í nóvember árið 2023 og breytist því ekki samkvæmt mælingum.

Samfylkingin mælist með 26% fylgi í borginni eins og í síðustu könnun sem framkvæmd var í mars. Flokkurinn fékk um 20% atkvæða í kosningunum árið 2022.

Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi

Sjálfstæðisflokkurinn tapar þremur prósentustigum á milli kannanna og mælist nú með 20% fylgi, en í síðustu kosningum fékk hann um 25%.

Viðreisn og Píratar mælast með 12% fylgi hvor. Viðreisn bætir við sig þremur prósentustigum frá síðustu könnun en flokkurinn fékk 5% í síðustu kosningum.

Sósíalistaflokkurinn mælist með jafn mikið fylgi og hann fékk í síðustu kosningum eða um 8%.

Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Miðflokkur sækir í sig veðrið

Miðflokkurinn mælist með 8% fylgi og sækir í sig veðrið ef miðað er við síðustu kosningar, þar sem flokkurinn fékk um 2% fylgi.

Flokkur fólksins mælist með 6% fylgi, Framsókn með 4% fylgi og Vinstri græn 4% fylgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert