Gosmóða er sjáanleg yfir höfuðborgarsvæðinu en hún er ekki að mælast í því magni að hún ætti að hafa heilsufarsleg áhrif á fólk. Móðunni létti aðeins í nótt miðað við hvernig hún hefur verið undanfarna daga. Hún ætti að fara suður á bóginn út á haf í dag, hugsanlega með viðkomu í Grindavík. Seint í kvöld gæti eitthvað af gosmóðunni borist á Suðurland en þó í litlu magni.
Þetta segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um stöðu mála vegna eldgossins við Sundhnúkagíga.
Hægur vindur hefur verið um allt land undanfarna daga og hefur fólk orðið vart við gosmóðu víðs vegar um landið. Búast má við því áfram í dag þar sem verður hægur vindur og sól en mengunin er það lítil að hún ætti ekki að hafa nein heilsufarsleg áhrif á fólk.
Veðurstofunni hafa m.a. borist myndir af gosmóðu frá Fljótsdal á Austurlandi, auk þess sem það heyrðist af gosmóðu á Akureyri og Mývatni í gær.
Áfram er kröftug virkni í eldgosinu á gossprunguopinu sem hefur verið virkt undanfarna daga og er lítil breyting á stöðu mála þar. Hraun bunkast upp sunnan við gosopið, að sögn Jóhönnu, og skríður hægt áfram. Gígbarmar eru jafnframt teknir að byggjast upp á svæðinu.