Garðar Hrafn Sigurjónsson, varaformaður Félags fjallaleiðsögumanna, segir félagið hafa viljað gefa Mike Reid rými til að vinna í öðrum hlutum og að þess vegna hafi honum verið vikið úr stjórn félagsins.
Mike, sem var ritari stjórnar Félags fjallaleiðsögumanna, er annar stofnandi fyrirtækisins Ice Pic Journeys sem stóð fyrir íshellaferðinni það sem banaslys varð síðasta sunnudag.
Garðar segir félagið ekkert hafa út á að setja varðandi störf Mike fyrir félagið.
Segir Garðar að brottför ritarans úr stjórninni sé tímabundin og vari á meðan rannsókn slyssin standi yfir.
„Við viljum gefa honum rými til þess að vinna í því sem að hann þarf að vinna að núna. Hann hefur nóg á sinni könnu,“ segir Garðar.
Erfitt hefur reynst fyrir fjölmiðla að ná í Reid og meðeiganda hans í Ice Pic Journeys, Ryan Newburn, eftir slysið. Spurður hvort næstu skref Ice Pic Journeys hafi verið rædd innan Félags fjallaleiðsögumanna segir Garðar ekki svo vera.
„En ég býst við því að hann sé að halda utan um starfsmenn sína og fara í gegnum þá ferla sem þarf að gera þegar það verða svona slys.
Ég vil minnast á það að hann hefur unnið gott starf innan félagsins og hann hefur náð sér í öll þau réttindi sem hann þarf að hafa persónulega. Það er ekkert í hans starfi fyrir félagið sem við höfum út á að setja. Við vildum bara gefa honum þennan tíma,“ ítrekar varaformaðurinn.
Spurður hvort honum þyki umræðan í garð Ice Pic Journeys óvægin eftir slysið segir Garðar vissulega mikla gagnrýni hafa komið upp.
Það sé kannski eðlilegt í ljósi aðstæðna. En kannski þurfi aðeins að bíða og sjá hvað þessi rannsókn leiði í ljós og hvernig aðstæður voru á staðnum.
Eru búnar að vera miklar umræður um slysið innan félagsins?
„Það eru miklar umræður innan félagsins en fyrst og fremst ætlar félagið að halda áfram að einbeita sér að fagmennsku og öryggi, bæði fyrir leiðsögumenn og viðskiptavini sem að leiðsögumenn í okkar félagi fara með á fjöll og draga lærdóm af þessu atviki sem að hefur komið fram. Það er mikilvægt að við drögum mikinn lærdóm af þessu slysi.“
Nefnir varaformaðurinn jafnframt að nú sé góður tími fyrir fyrirtæki og leiðsögumenn til að fara í góða endurskoðun á verkferlum sínum.