Hlaup í Skaftá er í rénun en rennsli í ánni við Sveinstind fer minnkandi og mælist nú um 160 rúmmetra á sekúndu.
Hlaupið hófst á þriðjudaginn í síðustu viku en rúmmál hlaupvatnsins sem þegar er komið fram við Sveinstind er talið vera um 50 milljónir rúmmetrar.
Gervihnattamyndir sem sýna yfirborð Eystri-Skaftárketilsins gefa til kynna að hlaupið eigi upptök sín þar frekar en úr þeim vestari eins og áður var talið. Ástæðan fyrir því að hlaupið var talið koma úr Vestar-Skaftárkatlinum er m.a. sú að óvenju langt er liðið frá seinasta hlaupi úr þeim katli.
Frá þessu er greint í tilkynningu Veðurstofunnar.
Í tilkynningunni kemur fram að síðast hafi hlaupið úr Eystri-Skaftárkatlinum í ágúst á síðasta ári og því hafi aðeins liðið ár milli atburða. Algengast er þó að um tvö til þrjú ár líði á milli hlaupa.
„Það er því óvenjulegt að það hlaupi úr katlinum svo stuttu eftir seinasta hlaup. Það er þó ekki óþekkt að hlaup komi með styttra millibili en 1992 og 2003 komu fram hlaup 13 og 14 mánuðum eftir seinustu hlaup þar á undan. Þau hlaup voru áþekk þessu hlaupi, þ.e. ekki með miklu hámarksrennsli en vörðu bæði í meira en tvær vikur.“
Eins og áður kom fram er rúmmál hlaupvatns sem þegar er komið fram við Sveinstind um 50 milljónir rúmmetrar.
„Ef söfnun hlaupvatns í lónið undir katlinum hefur verið með líkum hætti og á milli fyrri hlaup má ætla að 60 til 100 Gl gætu verið tiltækir. Það má því ætla að a.m.k. helmingur hlaupsins eða jafnvel meirihluti þess sé þegar kominn fram.“