Fyrsta fyrirtaka uppboðsbeiðni Byggðastofnunar á jörðinni Kárhóli í Þingeyjarsveit og fasteignum sem á jörðinni eru var tekin fyrir hjá embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra sl. föstudag og var þar ákveðið að byrjun uppboðs færi fram á skrifstofu embættisins á Akureyri hinn 4. október kl. 10.
Þetta staðfesti Svavar Pálsson sýslumaður í tölvupósti til Morgunblaðsins.
Þar kemur og fram að auglýsing um byrjun uppboðs verði send til birtingar mánudaginn 30. september nk.
Tekur sýslumaður fram að honum beri að slá því á frest að uppboð hefjist, óski gerðarbeiðendur þess, en heimilt sé að fresta byrjun uppboðs um allt að einu ári.
Á Kárhóli reka Kínverjar rannsóknarstarfsemi sem miðar að rannsóknum á norðurljósum. Íslenskir aðilar hafa og aðkomu að þeim í gegnum Rannís.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.