Félag yfirlögregluþjóna lýsir áhyggjum af auknum vopnaburði ungmenna en á undanförnum dögum hafa nokkur mál komið upp þar sem hnífum og öðrum vopnum hefur verið beitt af börnum.
Sextán ára piltur var handtekinn á Menningarnótt en hann er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni með hnífi og er ein stúlka sem varð fyrir árásinni enn í lífshættu.
Þá voru tveir 16 ára piltar handteknir í nótt þar sem þeir réðust að 15 ára dreng með hnífi og hnúajárni.
„Í kjölfar hátíðarhaldanna í Reykjavík undir heitinu Menningarnótt 2024 og viðtals við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna alvarlegs máls sem kom upp þá helgi þar sem hnífi var beitt lýsir félag yfirlögregluþjóna áhyggjum af auknum vopnaburði ungmenna og ofbeldishegðun,“ segir í ályktun stjórnar félags yfirlögregluþjóna.
„Bent hefur verið á þessa þróun um nokkurt skeið en mikil aukning slíkra tilvika hefur orðið undanfarið og hefur félagið þungar áhyggjur af þróuninni og hvert stefni. Margir aðilar þurfa að koma að þeirri vinnu, að snúa þróuninni við, ekki síst foreldrar,“ segir enn fremur.