Orkuveitan býður út 35 borunarsvæði

Í tilkynningu segir Sævar orkuskipti vera eitt mikilvægasta verkefni framtíðarinnar …
Í tilkynningu segir Sævar orkuskipti vera eitt mikilvægasta verkefni framtíðarinnar og að verið sé að leggja fram langtíma áætlun til þess að ná fram meiri hagkvæmni við boranir. Ljósmynd/Aðsend

Orkuveitan, í samstarfi við KPMG, hefur hleypt af stað útboði á Evrópska efnahagssvæðinu á borun á allt að 35 rannsóknar- og vatnstökuholum á næstu fjórum árum. 

Ásamt því að sækja á svæði þar sem vitað er að heitt vatn er að finna verða einnig boraðar holur til rannsóknar á nýjum svæðum til frekari orku- og vatnsöflunar. 

„Stærðargráðan á útboðinu er staðfesting á því að við ætlum okkur að auka hér framboð á orku verulega á næstu árum,“ er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Orkuveitunnar, í tilkynningu. 

Stærðagráðan örvi tækniþróun

Í tilkynningu segir Sævar orkuskipti vera eitt mikilvægasta verkefni framtíðarinnar og að verið sé að leggja fram langtímaáætlun til þess að ná fram meiri hagkvæmni við boranir. 

„Þá teljum við að stærðargráða útboðsins leggi grundvöll að fjárfestingu verktaka í rafmagnsbor en fáir slíkir borar eru tiltækir nú. Með þessu erum við vonandi að örva tækniþróun í þessum geira með tilheyrandi ábata fyrir samfélagið.“

Tryggi heitt vatn og rafmagn

Þá er einnig haft eftir Sólrúnu Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna, að þetta sé stærsta útboð Veitna á borframkvæmdum á síðari árum. 

Hún segir enn fremur útboðið mikilvægt skref í að tryggja forðamál Hitaveitunnar til næstu ára. 

Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir í tilkynningu útboðið mikilvægt skref í að auka framleiðslu rafmagns innanlands. 

Verkefnastjóri útboðsins er Símon Þorleifsson hjá Orkuveitunni. Útboðið stendur opið til 20. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert