„Sárt að heyra“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Kristófer Liljar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir að það sé sárt að heyra af uppsögnum hjá fyrirtækjum Controlant.

Fyr­ir­tækið greindi frá því fyrr í dag að það hefði sagt upp 150 manns þvert á deild­ir og starfs­stöðvar í fimm lönd­um. 

Í færslu sem Áslaug Arna birti á Facebook kemur fram að svona fréttir séu þungar og að það sé nauðsynlegt að halda í það fólk sem missti vinnuna í dag. 

Allir upplifa óvissu og áhyggjur

„Það er sárt að heyra af þeim 150 starfsmönnum Controlant sem missa vinnuna í uppsögnum sem var greint frá í morgun. Við vitum að slíkar fréttir eru þungar fyrir bæði þá sem missa starfið og fjölskyldur þeirra. Eins fyrir þá sem halda sínu – allir upplifa óvissu og áhyggjur á tímum eins og þessum,“ segir Áslaug Arna í færslunni. 

„Controlant er leiðandi fyrirtæki í nýsköpun og tæknilausnum, sem við Íslendingar getum verið stolt af. Það er einnig gott dæmi um hvað býr í íslenskum frumkvöðlum, hugrekkið til að taka áhættu og hugsa stórt. Það þarf styrk og seiglu til að byggja upp fyrirtæki af þessari stærðargráðu.

Við verðum að halda í þetta öfluga fólk sem missti vinnuna í dag. Það gerum við aðeins með umhverfi þar sem framtakssamir einstaklingar á bak við öflug nýsköpunar- og tæknifyrirtæki geta vaxið, skapað störf og tryggt að hæfileikar starfsfólksins fái notið sín til fulls.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka