Segir áform uppi um niðurlagningu jöklaleiðsögunáms

Áform um að leggja niður jökla- og fjallaleiðsögunám, sem kennt hefur verið Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, voru kynnt daginn eftir banaslys sem varð á Breiðamerkurjökli á sunnudag.

Þetta fullyrðir Íris Ragnarsdóttir Pedersen á Facebook-svæði ferðaþjónustunnar á Íslandi, Bakland ferðaþjónustunnar. Íris á sæti í stjórn Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi.

„Síðasta mánudag (26.ágúst) fékk FAS, Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu, boð á fund með menntamálaráðuneytinu þar sem fundarefnið var að það eigi að leggja niður námsbrautina um áramót. FAS er eina mennastofnun landsins sem býður upp á heildstætt nám í jökla- og fjallaleiðsögn,“ segir Íris.

Færsla Írisar.
Færsla Írisar. Skjáskot

Hvaðan á öryggið að koma?

Námið er að sögn Írisar að mestu kennt í sveitarfélaginu Hornafirði þar sem mesta jöklaferðaþjónusta landsins fer fram.

„Fagmennska og öryggi. Hvaðan á það að koma ef ekki í gegnum menntaða leiðsögumenn?,“ spyr Íris en hún var ein af þeim sem komu fyrst á vettvang síðastliðinn sunnudag og starfar sem jöklaleiðsögumaður.

Uppfært:

Ráðuneytið fullyrðir að þetta sé ekki rétt, í nýrri tilkynningu. Það gerir skólameistari FAS einnig. Fyrirsögninni að ofan hefur verið breytt til samræmis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert