Sigmundur: „Það er ekki að fara að gerast“

Sigmundur segir Miðflokkinn vilja ná fram sterkri niðurstöðu í næstu …
Sigmundur segir Miðflokkinn vilja ná fram sterkri niðurstöðu í næstu kosningum til að fara í ríkisstjórn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er ánægður með nýjustu skoðanakönnun Maskínu en segir þó að hann taki niðurstöðunum ávallt með fyrirvara. Hann segir að stjórnarflokkarnir hafi beðið eftir kraftaverki en að það sé ekki að fara gerast. 

Sigmundur telur að Miðflokkurinn sé að sækja í sig veðrið vegna þess að flokkurinn tali fyrir svokallaðri skynsemishyggju.

Hann tali út frá raunveruleikanum en ekki einhverri ímynd eða umbúðamennsku, sem sé orðin allsráðandi í pólitíkinni á Íslandi og víða um heim að hans mati.

Stjórnarflokkarnir beðið eftir kraftarverki

„Ég held að stjórnarflokkarnir hafi verið að bíða og vona að það kæmi eitthvað kraftaverk sem að myndi auka fylgi þeirra. Í tilviki Sjálfstæðisflokksins þá held ég reyndar að forystan þar sé búin að bíða og vona að árið 1999 kæmi aftur og þau vöknuðu upp af vondum draumi og allt í einu væri komið fjórflokkakerfi og þau með 40% fylgi. En það er ekki að fara að gerast og það er ekki síst vegna þess hvernig þeir sjálfir hafa haldið á málunum,“ segir Sigmundur.

Miðflokk­ur­inn mæl­ist nú með 15,3% fylgi á sama tíma og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn mæl­ist aðeins með 13,9% fylgi.

Sigmundur ítrekar að könnunum beri að taka með fyrirvara en segir þó að könnunin beri vott um það að möguleiki sé á því að ná fram breytingum í pólitíkinni í næstu kosningum.

Mörg verkefni sem bíða næstu stjórnar

En hverjar eru þær breytingar?

„Það sem við viljum ná fram í kosningum er auðvitað nógu sterk staða til þess að geta myndað stjórn þar sem við höfum áhrif á áherslur þeirrar stjórnar. Þar eru mörg verkefni sem að bíða og hægt er að leysa ef menn leyfa sér að líta á hlutina eins og þeir eru og beita skynseminni,“ segir Sigmundur.

Nefnir hann í því samhengi hælisleitendamálin, sem hann segir vera í algjörum ólestri.

„Það er hægt að ná tökum á þessu og gera það mjög hratt. Ná aftur þeirri stöðu að Ísland, eyja í Norður-Atlantshafi, hafi stjórn á sínum landamærum,“ segir hann.

Mögulega þurfi að grípa til sársaukafullra aðgerða

Þá nefnir hann einnig efnahagsmálin og ríkisfjármálin, sem eru nátengd þeim.

„Það er ekkert skrýtið að verðbólgan sé eins og hún er á Íslandi þegar við höfum horft upp á gegndarlausa útgjaldaaukningu hér ár eftir ár, án þess að verðmætasköpun hafi fylgt. Það er eitthvað sem þarf að taka á af festu og mun kalla á aðgerðir sem að sumir munu kannski segja að séu sársaukafullar en eru nauðsynlegar,“ segir Sigmundur.

Ertu þá að tala um niðurskurð einhvers staðar?

„Ég er að tala um að peningarnir nýtist betur og einhverjum tilvikum getur þurft að segja eins og Milei í Argentínu [forseti Argentínu], „Afuera“, að eitthvað þurfi að fara burt.

En aðalatriðið er að peningarnir nýtist betur. Oft er bent á að stór hluti ríkisútgjalda fari í mál sem allir telja mikilvæg eins og heilbrigðismálin og menntamálin en útgjöldin tryggja ekki árangur,“ segir hann.

Myndskeið sem Javier Milei, forseti Argentínu, deildi á samfélagsmiðlum, þar …
Myndskeið sem Javier Milei, forseti Argentínu, deildi á samfélagsmiðlum, þar sem hann sagði hvaða ráðuneyti hann myndi hætta með, varð frægt á sínum tíma. Þar sagði hann einmitt „afuera“ um þau ráðuneyti sem hann vildi leggja niður. AFP/Juan Mabromata

Hverfa þurfi frá hugmyndum um samdrátt í orkunotkun

Bendir hann á menntamálin, þar sem Ísland er með eitt dýrasta grunnskólakerfi í heimi en er með einn lakasta árangurinn í Evrópu miðað við Pisa, og heilbrigðismálin.

„Í heilbrigðismálum hafa útgjöldin aukist ár frá ári en biðlistarnir haldast jafn langir eða lengjast og fólk er held ég ekki sáttari við það kerfi en það var áður,“ segir hann.

Hann segir að Miðflokkurinn muni leggja áherslu á orkumálin, komist flokkurinn í ríkisstjórn. Nefnir hann að hverfa þurfi frá hugmyndum um „að draga úr orkunotkun í ljósi einhverra loftlagsmarkmiða“.

Bendir hann á að ekki séu til þjóðir sem noti litla orku en framleiði mikil verðmæti.

Vill ganga til kosninga sem fyrst

Sjálfur vill Sigmundur ganga til kosninga sem allra fyrst en hefur ekki hugmynd um það hvort að stjórnarsamstarfið muni endast fram á haustið 2025.

Sjálfur giskar hann á það að kosið verði næsta vor eftir mikil innbyrðis átök hjá stjórnarflokkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert