Skólameistarinn: „Verið að leita leiða“

Lind Draumland Völundardóttir segir FAS vera að leita leiða svo …
Lind Draumland Völundardóttir segir FAS vera að leita leiða svo hægt verði að bjóða upp á fjallamennskunám áfram. Samsett mynd

Lind Völundardóttir, skólameistari Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS), segir það ofsögum sagt að uppi séu áform um að leggja niður nám í fjallamennsku í skólanum.

Þess í stað orðar hún það svo að „verið sé að leita leiða“ svo námið geti haldið áfram.

Hún útskýrir þó ekki frekar í hvaða öngstræti námið er komið og hvers vegna þurfi að leita leiða.

„Þetta er rangt til orða tekið. Við erum að leita leiða til að námið geti haldið áfram,“ segir Lind.

Sagði standa til að leggja námið niður

Vísar hún þar til orða Írisar Ragnarsdóttur Pedersen, stjórnarmanns í Félagi fjallaleiðsögumanna sem sagði á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar að til stæði að leggja námið niður.

Lind segist ekki vita hvers vegna Íris taldi svo vera.

Menntamálaráðuneytið fullyrðir að ráðuneytið hafi ekki krafist þess eða lagt það til að námið yrði lagt niður.

Mikilvægt nám 

„Okkur finnst þetta mikilvægt nám inni í ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Lind.

Hvaða leiðir er það sem verið er að leita? Vantar fjármagn til að halda náminu áfram?

„Þetta er bara umfangsmikið og dýrt nám. Það er verið að leita leiða til að halda því áfram,“ ítrekar Lind.

Hún vill ekki tjá sig um það hvort fjármagn vanti eða hvaða leiðir það eru.

„Við erum að leita leiða sem ekki munu bitna á nemendum og ekki náminu heldur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert