Tveir voru handteknir eftir eftirför lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Reyndi hann að hlaupa undan lögreglunni en náðist fljótlega. Farþegi gerði þá tilraun til að aka á brott en var stöðvaður. Því eru báðir hinna handteknu grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá eru vísbendingar uppi um önnur brot. Málið, sem kom upp í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti á milli klukkan 23 í gærkvöldi og 5 í morgun, er til rannsóknar.
Í gærkvöldi hafði lögreglan afskipti af erlendum ríkisborgurum vegna gruns um brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Þrennt var flutt á lögreglustöðina á Hverfisgötu í Reykjavík og voru þau látin laus eftir staðfestingu skilríkja.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna konu að betla í Reykjavík.
Hún hafði haft í frammi ógnandi framkomu við þann sem tilkynnti um málið.
Konan var farin þegar lögregla kom á vettvang, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Afskipti voru höfð af ungmennum að brjóta sér leið inn í yfirgefið húsnæði í Reykjavík í gærkvöldi. Þau voru treg til að gefa upp nafn og kennitölu. Ungmennin voru flutt á lögreglustöð og voru foreldrar og barnavernd látin vita. Við leit á einu ungmennanna fannst hnífur og verður viðkomandi kærður fyrir vopnalagabrot.
Tilkynnt var um hóp af unglingum að kasta steinum í rúðu. Þegar lögregla kom á staðinn var rætt við nokkra sem gáfu sig á tal við lögreglu. Ekki var að sjá neinar skemmdir og var því ekki gripið til neinna aðgerða.
Lögreglan í Kópavogi og Breiðholti hafði afskipti af ökumanni vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá reyndist hann einnig sviptur ökuréttindum. Við leit í bifreiðinni fundust sölueiningar af fíkniefnum. Farþegi í bifreiðinni er einnig grunaður um vörslu fíkniefna.
Lögreglan var kölluð til vegna hópamyndunnar ungmenna. Skömmu áður var sagður nokkur hiti í fólki og eitthvað um drykkju. Eftir spjall og upplýsingagjöf var ekki gripið til frekar aðgerða.
Skýrsla var rituð um lagningu vörubifreiðar í almenningsstæði. Samkvæmt lögreglusamþykkt fyrir tiltekið sveitarfélag mega vörubifreiðar af þessari þyngd ekki leggja í almenningsstæði.
Hjá lögreglunni í Hafnarfirði og Garðabæ var tilkynnt um eitt heimilisofbeldismál í gærkvöldi. Málið er í rannsókn.