Varaði við ísfarginu aðeins nokkrum mínútum áður

Birgir Þór Júlíusson er leiðsögumaður og eigandi Niflheima ehf.
Birgir Þór Júlíusson er leiðsögumaður og eigandi Niflheima ehf. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kem þarna að manninum sem fannst látinn undir ís, lappirnar hans standa út og hann hallar svona niður. Ég tek haka, ýti ísnum af honum og dreg hann upp svo að hann kafni ekki. Ég geri endurlífgunartilraunir á manninum. Ég fæ síðan þær fréttir að það sé slösuð kona fyrir ofan og það er konan hans,“ segir Birgir Þór Júlíusson, sem kom að banaslysi á Breiðamerkurjökli á sunnudag.

Birgir er einn þriggja eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Niflheima, sem stundar íshellaskoðun í jöklinum.

Endurlífgunartilraunirnar á manninum reyndust árangurslausar. Hann var bandarískur ferðamaður sem var þar ásamt þungaðri konu sinni sem flutt var slösuð með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er konan á batavegi og barnið sakaði ekki. 

Birgir var sjálfur með hóp í íshellaferð á sunnudag. Hann segist hafa tekið eftir „stykkinu“ sem hrundi skömmu áður en það raungerðist. Stykkið, sem raunar var ísbogi, segir hann hafa verið ofan við myndatökusvæði skammt frá stíg sem farinn er í íshellaferðunum. Hann varaði næsta leiðsögumann við, sem var á ferð með annan hóp. Þetta sama stykki hrundi skömmu síðar með fyrrgreindum afleiðingum.

„Þetta er það versta sem hefur nokkurn tímann komið fyrir mig. Ég var með hópa í þessum helli og ég var með síðasta hópinn þennan dag. Ég sá þetta stykki og stoppaði við það og leist ekkert á það. Ég sá að það átti ekki langt eftir,“ segir Birgir og bætir við.

„Ég sá fyrir mér að ég þyrfti fara þarna um kvöldið og taka þetta niður.“

Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli á sunnudag.
Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli á sunnudag. Ljósmynd/Landsbjörg

Varaði við stykkinu

Birgir segir að stykkið hafi fallið á stað sem ætlaður er fyrir myndatökur og er hann eilítið frá þeim slóða eða leið sem alla jafnan er farin í íshellaferðum á vegum fyrirtækisins. 

Á sunnudag ákvað hann sjálfur að beina sínum hópi frá myndatökustaðnum. Mat hann það of hættulegt miðað við ásýnd stykkisins.

Fór hann þess í stað innar í hellinn í rými sem hann segir hafa verið á öruggu svæði. Þar hafi hann hitt annan tveggja leiðsögumanna Ice Pic Journeys sem sáu um hópinn fyrir aftan hóp Birgis.

„Ég benti honum á stykkið og sagði það hættulegt. Sýndi honum sigið í því og benti á að þetta þyrfti að fara um kvöldið. Ég gerði ráð fyrir því að hann myndi láta hinn leiðsögumanninn vita og taldi að þetta væri nú í farvegi. Ég fór svo upp á jökul með hópinn minn.“

Birgir segir sól og blíðskaparveður hafa verið þegar út á jökul var komið og það hafi ekki hjálpað. Sólin hafi líklegast haft áhrif á undirstöður veggja íshellisins og breytingar verið hraðar.

Kveðst hann hafa verið á leiðinni niður af jöklinum með hóp sinn þegar hann heyrði hljóð. Hafi hann því sagt hópnum að bíða á meðan hann hljóp aftur upp og inn í hellinn.

Mislangur undanfari

Þegar að var komið varð honum ljóst að ísboginn hafði fallið á áðurnefndum myndatökustað. Efast Birgir um að leiðsögumaðurinn sem hann hafi hitt á leið sinni út úr hellinum hafi náð að koma skilaboðum á samstarfsaðila sinn sem var lengra inni í hellinum með hópinn. 

Hann segir ísstykki ekki hrynja fyrirvaralaust.

„Málið er að það byrjar að heyrast brestur í ísnum sem undanfari. Sá undanfari getur verið þrjátíu sekúndur eða fimm mínútur eða hálftími.“

Sá leiðsögumaður sem Birgir hitti hafði að sögn hans heyrt brestina í ísnum og hlaupið í átt að stykkinu til að vara fólk við. Þangað hafi hann hins vegar komið of seint og horft upp á bandaríska manninn lenda undir ísfarginu.

Birgir Þór hefur boðið upp á íshellaferðir í tíu ár.
Birgir Þór hefur boðið upp á íshellaferðir í tíu ár. Ljósmynd/Aðsend

Mikill léttir að ekki hafi fleiri verið undir

Spurður hvernig meiðslum konunnar hafi verið háttað segir Birgir að læknir hafi verið í hópnum sem hafi verið með konunni. Segist hann hafa einblínt á endurlífgunartilraunir á hinum látna. Þegar þær gengu ekki eftir hafi Birgir kosið að færa lík hans til að hlífa konu hans við að sjá hann.

„Síðan fara þeir að telja í hópnum og ég bið þá um að telja þá sem eru uppi og niðri og þá allt í einu vantar fjóra. Síðan telja þeir betur og þá eru það tveir sem vantar. Ég horfði þarna yfir og met það strax sem svo að hver sem er þar undir væri látinn,“ segir Birgir. 

Í ljós hefur komið að ekki var nægjanlega vel haldið utan um skráningu í ferðina og voru misvísandi upplýsingar um fjölda fólksins í hópnum sem var í hellinum er hrunið varð. Í fyrstu var talið að tveggja væri saknað undir farginu. 

Björgunarsveitir voru kallaðar út og vel á annað hundrað manns voru við leit þegar mest lét.  Til allrar hamingju urðu ekki fleiri undir farginu. Heldur reyndist skráning í ferðina ekki vera rétt. 

Birgir segir mikinn létti hafa því fylgt er síðasta klakastykkinu var lyft og í ljós kom að enginn var undir. 

Sjálfur fór Birgir fljótlega í að koma hópnum sínum frá svæðinu skömmu eftir að stykkið féll. „Fólk var náttúrulega í sjokki en allir sýndu mikinn samhug,“ segir Birgir. Eftir að hann hafði skilað hópnum sínum fór hann á jökulinn að nýju til að hjálpa til.  

Er ekki að hætta lífi sínu að óþörfu

Spurður um þá umræðu sem myndast hefur í samfélaginu varðandi þá hættu sem fylgi íshellaferðum að sumri til, svarar Birgir því til að öllu fylgi áhætta. Telur hann vetrarferðir ekki síður hættulegar sökum þess hve veður er óútreiknanlegt að vetri til á Íslandi. 

„Sama hvað maður gerir. Hvort sem þú ferð með fólk á kajak, bátsferð á Jökulsárlóni, köfun í Silfru eða annað þá er alltaf áhætta sem fylgir því. Við höfum verið að taka fólk í hellaferðir í tíu ár. Í ferðirnar hefur komið fjöldi sem er svipaður tvöfaldri íslensku þjóðinni. Þetta er því ekki hátt slysahlutfall. Ég hef hugsað það í mörg ár hvernig maður myndi bregðast við ef það yrði slys á jökli. Það kemur alltaf að því að slys verður og það kom á daginn á sunnudag. Það sama á við um rútuferðir og hvað það er sem tengist þessari ferðamennsku,“ segir Birgir.  

Ekki sama fyrirbrigði og Magnús Tumi talar um 

23 virk leyfi eru til íshellaferðamennsku á Breiðamerkurjökli. Ice pic jouneys og Niflheimar undir merkjum Glacier Mice eru þau einu sem bjóða upp á íshellaferðir að sumri til. Sumarferðirnar hafa verið gagnrýndar.  

En nú er til staðar skýrsla frá Magnúsi Tuma Guðmundssyni og Finni Páls­syni og Jóni Gauta Jóns­syni fyr­ir sjö árum um áhættumat vegna ferða í ís­hella fyr­ir Vatna­jök­ulsþjóðgarð þar sem bent var á að ís­hella­skoðun að sumri til teljist mjög hættu­leg. Engu að síður er boðið upp á þessar ferðir. Hvers vegna? 

„Við hugsum alla jafna um íshella þar sem jökulá hefur gert farveg og þornað svo upp með haustinu og enn meira með vetrinum. Menn hafa gengið þar inn og sýnt ferðamönnum á veturna. En það eru til mörg form af íshellum. Ferðirnar sem við höfum verið að bjóða upp á eru svokallaðar holuferðir. Við hættum að fara í þessa almennu hella fyrir nokkrum árum vegna of mikils fjölda af gestum. Það eru hellarnir sem skýrslan nær til.“

Birgir segir ólíku saman að jafna að tala um íshelli …
Birgir segir ólíku saman að jafna að tala um íshelli sem myndast í árfarvegi og þær íshellaferðir sem fyrirtæki hans býður upp á. mbl.is/RAX

„Við höfum farið með fólk inn í minni svelgi uppi á jökli. Þar hefur leysingavatn og regnvatn sorfið jökulinn og búið til hella. Við förum því í minni rými með bláa veggi og þetta hefur verið kallað holumenning,“ segir Birgir Þór.

Af þessum sökum telur hann að svona tilvik hefði allt eins getað gerst í jöklagöngu. „Við vorum ekki undir neinu þaki eða eitthvað slíkt. Við vorum bara að fara eftir vatnsrás. Þetta er ekki sama fyrirbrigði og Magnús Tumi skrifar um,“ segir Birgir. 

Ítrekar hann að boginn sem gaf sig og féll á fólkið hafi verið á myndatökustað fjarri þeirri rás sem farið var eftir.   

Jafn mörg hættuleg stykki á veturna 

Að sögn Birgis höfðu orðið miklar breytingar í jöklinum síðustu tvær vikurnar fyrir slysið. Hann, ásamt samstarfsmönnum, voru gjarnan langt fram eftir nóttu að höggva og taka niður stykki sem talin voru hættuleg.

„Það hefur ekki verið hætta þarna í sumar fram til þessa og maður fylgist náttúrulega með breytingunum á stykkjum,“ segir Birgir og bætir við.

„Það hafa ekki stykki verið fallandi upp úr engu í þessum helli í sumar. Ég á konu og þrjú börn sjálfur og ég er ekki að hætta lífinu mínu að óþörfu.“

Segist hann hafa unnið við starfið núna í tíu ár og hafi þurft að taka sama magn stykkja niður úr hellum að vetri til og að sumri til. 

„Það eru náttúrulega veðurfarsbreytingar allt árið hérna á Íslandi. Þú getur verið með 20 gráða frost einn daginn á veturna og 10 stiga hita og rigningu þann næsta. Við erum ekki með loftslag eins og í Þýskalandi eða Kanada þar sem er annaðhvort vetur eða sumar,“ segir Birgir.

Greint hefur verið frá að ekki verði fleiri íshellaferðir í Vatnajökulsþjóðgarði að sinni. Birgir segist ekki kominn á þann stað að velta framtíð fyrirtækisins fyrir sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert