„Við stóðum á nákvæmlega sama stað“

Frá aðgerðum björgunarsveita á Breiðamerkurjökli.
Frá aðgerðum björgunarsveita á Breiðamerkurjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

„Ég vil ekki hugsa um það,“ segir bandarísk stúlka í samtali við bandarísku fréttastöðina CNN, en hún var stödd á Breiðamerkurjökli á sunnudag ásamt föður sínum þegar ísveggur hrundi á tvo bandaríska ferðamenn með þeim afleiðingum að kona slasaðist og karlmaður lét lífið.

Faðir stúlkunnar, Scott Stevens frá Texas, segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda að það hefði aðeins litlu mátt muna að hann og dóttir hans hefðu orðið undir ísnum. En þau höfðu verið þarna á sama stað í hellinum nokkrum mínútum áður. 

Fram kemur í viðtalinu að Scott, sem er frá Austin í Texas, hafi íhugað að vera aðeins lengur inni í hellinum til að taka myndir. 

Fjölmennt lið fór á vettvang.
Fjölmennt lið fór á vettvang. Ljósmynd/Landsbjörg

Íhugaði að vera lengur

„Ég gerði mér grein fyrir öðrum hóp fyrir aftan mig, og ég vildi ekki tefja neinn, því þetta var eiginlega bara halarófa. Ég taldi það því dónalegt af minni hálfu að láta alla standa þarna á meðan ég væri að skipta um linsur, svo ég ákvað að gera það ekki og svo gengum við út,“ segir Stevens í samtali við CCN. 

Fram kemur í umfjölluninni, að um einni mínútu eftir að allir voru komnir út þá hafi hár hvellur heyrst og hópurinn heyrði eitthvað brotna í hellinum. 

„Mér leið eins og ef ég hefði sótt hina linstuna, þá væri ég 100% látinn núna. Við værum látin. Við stóðum þarna á nákvæmlega sama stað,“ segir dóttir hans, Wylde Stevens. „Ég er að reyna... ég vil ekki hugsa um það.“

Stevens segir það rétt að þetta hefði alveg eins getað verið þau sem hefðu orðið undir ísnum sem hrundi. 

Ljósmynd/Landsbjörg

„Hann er ekki á heimleið“

„Ég var að hugsa um þennan mann. Hann var bara þarna í fríi, og ég er viss um að hann hélt að hann væri á leiðinni heim í dag eða á morgun, eða daginn eftir. Og veistu, hann er ekki á heimleið.“

Stevens segir að tveir hópar hafi verið að skoða jökulinn þennan dag. Hann tilheyrði fyrri hópnum og parið sem varð undir ísnum tilheyrði þeim seinni. Fólkið kom saman á staðinn en var skipt í tvo hópa, þar sem um 12 manns fóru inn í einu. 

Stevens kveða hafa verið að ræða við leiðsögumanninn sinn þegar þeir heyrðu háan hvell.

„Hann horfði á mig. Ég horfði á hann,“ segir hann og bætir við að þeir hafi báðir hugsað með sér að þetta væri slæmt. 

Stevens kveðst hafa hlaupið með leiðsögumanninum inn í gilið til að sjá hvað hafði gerst og þá sáu þeir slasaða konu. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Leiðsögumennirnir í áfalli

„Ég sá konuna með eigin augum. Ég vissi að hún væri slösuð.“

Hann bætir við að aðrir leiðsögumenn og læknir, sem var með í för, hefðu strax farið í að aðstoða konuna. 

Stevens greinir jafnframt frá því að leiðsögumaðurinn hans hefði verið áfalli. 

„Hann grét. Hann kom til baka og var blóðugur, ég held að það hafi verið úr manninum sem lést. Og hinn leiðsögumaðurinn var einnig alveg miður sín. Báðir í miklu áfalli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert