Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsir eftir umsóknum um starf lögreglumanns, en alls eru 28 stöður í boði. Þetta kemur fram í auglýsingu sem birt er í Lögbirtingablaðinu.
Fram kemur að sett verði í stöðurnar frá 1. janúar 2025 í sex mánuði, með skipun í huga að reynslutíma loknum. Ekki er einsdæmi að auglýst sé eftir slíkum fjölda lögreglumanna á einu bretti, en árið 2022 var auglýst eftir 30 lögreglumönnum og 43 árið á undan, skv. upplýsingum frá lögreglunni.
„Um er að ræða spennandi, krefjandi og fjölbreytt störf í almennri löggæslu,“ segir í auglýsingunni og að leitað sé að drífandi og metnaðarfullum lögreglumönnum til starfa.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.