Alls hafa um tuttugu skjálftar mælst við Bárðarbungu síðastliðinn sólarhring.
„Það koma skjálftar þarna af og til, þetta er ekkert nýtt hjá okkur,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Skjálftarnir hafa verið frekar litlir og eru upptök þeirra á miklu dýpi. Mældist sá stærsti 1,2 að stærð.
Böðvar útskýrir að skjálftarnir séu staðsettir aðeins austan við Bárðarbungu, en ekki alveg í Bárðarbunguöskju.
„Við vitum ekki nákvæmlega hvað þetta segir okkur akkúrat núna, en þetta kemur alltaf reglulega á þessu svæði,“ segir Böðvar.
„Við sjáum enga eldgosaóróa eða neitt svoleiðis, þetta er ekkert þannig,“ bætir hann við.
Í dag eru liðin tíu ár frá því að eldgos hófst í Holuhrauni þann 29. ágúst 2014. Gosið hófst með 1.500 metra sprungu og hraunstreymi sem náði allt að 300 rúmmetrum á sekúndu. Áður en eldgosið byrjaði var mikil skjálftahrina í Bárðarbungu.