Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) um slys sem átti sér stað um borð í RIB-bát þar sem þrjár manneskjur slösuðust, eru gerðar athugasemdir við hraða bátsins og aðbúnað um borð.
Þann 15. Júní 2023 barst Neyðarlínu tilkynning um að þrjár manneskjur væru slasaðar um borð í RIB-báti eftir stutta siglingu úr Reykjavíkurhöfn. Um borð í bátnum voru níu farþegar auk skipstjóra og leiðsögumanns.
Þrír af þessum níu slösuðust alvarlega. Tveir farþegar voru fluttir á sjúkrahús og reyndust þeir vera hryggbrotnir, en sá þriðji fór strax úr landi og því ekki vitað hverjir áverkar hans voru.
Um borð í bátnum voru fjaðrandi sæti sem voru talsvert há sem leiddi til þess að lágvaxið fólk náði ekki að tylla fótum niður á þilfarið.
Farþegarnir sem slösuðust voru báðir 160 cm á hæð og náðu einungis rétt að tylla tánum niður.
Nái farþegar ekki góðri fótsetu er hætta á því að kraftur höggs leiði upp í gegnum sitjandann þegar bátar af slíkri gerð skella niður.
Samkvæmt framburði skipstjóra sigldi báturinn yfir kjölfar báts sem var nýbúinn að mæta RIB-bátnum.
Hafi það valdið því að báturinn lyftist upp að framan og skall svo niður, kom þá högg og farþegar slösuðust.
Gáfu farþegarnir þá merki um að eitthvað væri að og bátnum var snúið til hafnar.
Telur nefndin helstu orsakir slyssins annars vegar vera að bátnum hafi verið siglt á of miklum hraða yfir kjölfar annars báts og hins vegar að undirstöður sætanna hafi verið of háar til að þau virkuðu sem skyldi. Ekki var unnt að stilla hæð þeirra til samræmis við hæð farþega.
RNSA hefur rannsakað á annan tug alvarlegra slysa um borð í RIB-bátum í farþegaflutningum og lagt fram tillögur til að bæta öryggi farþega.