Betlarar leggjast til hvílu í miðborginni

Undanfarið hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurft að hafa afskipti af …
Undanfarið hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurft að hafa afskipti af fólki sem hefur lagst til hvílu í svefnpokum í miðborginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkuð hefur borið á því undanfarið að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi þurft að hafa afskipti af fólki sem hefur lagst til hvílu í svefnpokum í miðborginni.

Fram kemur í dagbók lögreglunnar vegna verkefna hennar frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun hafi verið tilkynnt um nokkra einstaklinga undirbúa svefn fyrir utan verslun í miðbæ Reykjavíkur og hafi þeim verið vísað á brott.

Þá segir í færslu á íbúasíðunni „Íbúar í Miðborg“ á Facebook að sjö til átta manns hafi verið búnir að koma sér vel fyrir í svefnpokum fyrir nóttina við iðnaðarmannahúsið við Hallveigarstíg.

Erlendir einstaklingar sem betla á götum borgarinnar

„Mér skilst að þetta séu erlendir einstaklingar sem eru að betla á götum borgarinnar,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Hann segir að þessi mál séu til skoðunar hjá lögreglunni og hvernig eigi að bregðast við þessu.

„Við höfum ekki orðið mikið vör við þessa betlara en mál af þessu tagi koma öðru hvoru upp á borð lögreglunnar. Síðustu daga höfum við hins vegar heyrt af þessu fólki og haft afskipti af því,“ segir hann.

Ásmundur segir að fólkið sé upplýst um það að þetta sé ekki leyfilegt og því sé oftast nær vísað á brott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert