Bjarni Benediktsson var mættur á Siglufjarðarveg við Almenninga fyrr í dag. Bæjarstjóri Fjallabyggðar skorar á yfirvöld að beita sér í flýta fyrir undirbúningi Fljótaganga og segir íbúa bæjarfélagsins vilja svör sem fyrst. Nefnir hún enn fremur að vegurinn hafi færst áfram um 14 sentímetra frá fimmtudegi fram á laugardag þegar grjót- og aurskriður gengu yfir.
„Það sem að við viljum leggja áherslu á núna er að það fari af stað vinna varðandi undirbúning gangna. Það er það eina sem við í rauninni sjáum sem lausn. Að flýta fyrir sem mest gerð Fljótagangna,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar.
Úrhellisrigning var á Tröllaskaga frá fimmtudegi og fram á laugardag. Grjót- og aurskriður féllu og ákvað aðgerðastjórn á Norðurlandi að loka Siglufjarðarvegi síðdegis á föstudaginn vegna vatnavaxta og skriðufalla.
Sigríður segir ástandið á veginum ekki gott. Úrkoman hafi mælst um 220-240 millimetrar á þeim tveimur sólahringum sem rigndi og heilmikið hafi gefið undan.
„Þeir segja mér, sérfræðingar frá Jarðvísindastofnun, að vegurinn færðist fram um 14 sentímetra,“ segir bæjarstjórinn og nefnir jafnframt að vanalega færist vegurinn um 90 til 100 sentímetra á ári.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar ályktaði um málið á mánudag þar sem skorað var á innviðaráðherra og þingmenn Norðausturkjördæmis að beita sér þegar í stað fyrir því að undirbúningi Fljótaganga verði hraðað. Segir Sigríður að það sé það eina sem stjórnin sjái sem lausn við vandamálum vegarins sem liggur við Almenninga.
„Það er bara þannig að vegstæðið í Almenningum er bara á mikilli hreyfingu og þetta er náttúrulega erfitt á sumrin út af grjóti og aurskriðum. En svo líka á veturna út af snjóflóði,“ segir Sigríður.
„Við erum bara núna með ákall til samgönguyfirvalda að tryggja nauðsynlega fjármuni til að hefja undirbúningsvinnu við jarðgöng sem eru eina varanlega lausnin,“ bætir hún við.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra heimsótti svæðið í gærdag til að skoða ástandið á veginum og segir Sigríður að rætt hafi verið við Bjarna um að koma Fljótagöngunum í farveg.
„Þannig að Vegagerðin geti í rauninni farið að sinna sinni undirbúningsvinnu varðandi göngin af því að þetta tekur allt tíma í ferli áður en að framkvæmdirnar sjálfar geta hafist,“ segir bæjarstjórinn og nefnir að íbúar bæjarfélagsins vilji gjarnan fá svör sem fyrst um hvenær göngin verði að veruleika.