Bjóða upp á bækur frá Forlaginu

Tungumálaforritið LingQ.
Tungumálaforritið LingQ. Skjáskot

Bókaútgáfan Forlagið og fjórir rithöfundar hafa tekið höndum saman um að bjóða upp á fyrstu kaflana úr bókum sínum í tungumálaforritinu LingQ. Þessu frumkvæði er ætlað að auðvelda útlendingum að læra íslensku og um leið kynna bækur rithöfundanna.

Nú er hægt að lesa fyrstu 2-3 kaflana úr bókum eins og Dauða skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson, Að telja upp í milljón eftir Önnu Hafþórsdóttur, Kalman-bókunum eftir Joachim B. Schmidt, ásamt fjölmörgum barnabókum Gunnars Helgasonar, þar á meðal Sigga sítrónu, Palla Playstation, Bannað að ljúga og fleirum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

LingQ er tungumálaforrit sem aðstoðar notendur við að læra tungumál með lestri og hlustun. Forritið býður upp á sjálfvirkar þýðingar á orðum og setningum, sem gerir lesendum kleift að skilja textann betur og smám saman auka orðaforða sinn með endurteknum lestri.

Árið 2022 innleiddi Rökkvi Vésteinsson íslensku í LingQ, og árið eftir gerði hann samning við eigendur forritsins um að bjóða upp á ókeypis íslenskukennslu í forritinu, að því er fram kemur í tilkynningunni. Hann leitaði síðan til Sigþrúðar Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra Forlagsins og rithöfundanna sem áður eru nefndir til að fá leyfi til að birta fyrstu 2-3 kaflana úr bókum þeirra. „Ef við ætlum að halda íslenskunni lifandi, sem er ekki lítil áskorun í dag miðað við þá þróun sem er að verða, þarf fólk að hafa aðgengi að góðu íslensku efni til að geta hlustað á og lesið og helst með einhverjum þýðingum. Samningurinn við Forlagið er auðvitað skref í því átaki sem ég hef verið í. Ég vona að það hvetji síðan fleiri höfunda til að hafa samband við mig og gera það sama,“ er haft eftir Rökkva í tilkynningunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert