Fá ekki framlög vegna frístundahúsa

Frístundahús telst ekki til íbúðarhúsnæðis skv. lögum og því ekki …
Frístundahús telst ekki til íbúðarhúsnæðis skv. lögum og því ekki hægt að skrá lögheimili þar. mbl.is/Ómar

„Eiga örfáir sem vilja búa í frístundahúsum að hafa valdið til að ráða skipulagi sveitarfélagsins? Er það stjórnsýsla sem almenningur sættir sig við?“

Þetta skrifa þau fimm sem skipa sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Berjast fyrir því að vera sýnileg

Guðrún Njálsdóttir býr í hreppnum en er óstaðsett í hús og skrifaði grein í blaðið sem birtist á mánudag.

Þar skrifaði hún um stöðu þeirra í hreppnum sem búa í frístundahúsum og þá sérstaklega um unga einstæða móður þriggja barna sem flutti nýverið í hreppinn.

Guðrún sagði í samtali við mbl.is í kjölfarið að þau sem væru skráð óstaðsett í hús berðust fyrir því að fá að vera sýnileg í samfélagi sínu.

Benda á mikilvægi skipulags

Í grein þeirra sem sitja í sveitarstjórn hreppsins benda þau á mikilvægi skipulags hjá sveitarfélögum.

Að nauðsynlegt sé að skilgreina hvert svæði innan sveitarfélags til þess að hægt sé að skipuleggja þá þjónustu sem því ber að veita íbúum sínum.

Nefna þau meðal annars snjómokstur, sorphirðu og skólahald sem dæmi.

„Segja má að grundvallarmálaflokkur fyrir þróun byggðar, búsetufrelsi og samfélag séu því skipulagsmál hvers sveitarfélags og er það í gegnum skipulagsáætlanir, þ.m.t. aðalskipulagið, sem vinnan á sér stað,“ skrifa sveitarstjórnarfulltrúarnir.

Flest sveitarfélög á landinu séu með þrjá tekjustofna. Þeir séu fasteignaskattur, útsvar og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Þó fái Grímsnes- og Grafningshreppur ekki framlög frá jöfnunarsjóðnum, meðal annars vegna frístundahúsanna, þar sem tekjustofnar sveitarfélagsins séu metnir það sterkir að ekki komi til úthlutunar framlags frá sjóðnum.

Ekki einfalt að breyta í íbúðabyggð

„Eftir því sem okkur fjölgar verður krafan um mismunandi búsetuform háværari,“ skrifa þau.

Í hreppnum séu 3.300 frístundahús sem fólk sæki meira og meira í, til dæmis til þess að fá næði og vera umlukið fallegri náttúru.

„Hins vegar er það svo að sveitarfélög geta ekki breytt frístundasvæði í íbúðabyggð bara af því að einhver vill búa þar. Málið er flóknara en svo. Fjöldi fólks vill til dæmis eiga frístundahús á þessum svæðum og koma þangað í fríum,“ segir í greininni.

Mörg svæðin séu einnig afgirt og aðgangsstýrð. Til þess að breyta svæðunum í íbúðabyggð þyrfti meðal annars að taka aðgangsstýringarnar niður.

Þau benda að lokum á að í lögum sé kveðið á um að lögheimili skuli skráð í íbúð eða húsi sem sé skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hafi staðfang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert