Ferðamenn ekki til vandræða

Vika er liðin frá því eldgosið hófst.
Vika er liðin frá því eldgosið hófst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir ekki hafi skapast nein vandræði af ferðamönnum en margir hafa lagt leið sína í átt að gosstöðvunum frá því gosið hófst fyrir viku síðan.

Lögreglustjórinn segir að helstu verkefnin hafi snúist að lokunarpóstunum en búið sé að færa þá til.

„Við vorum með lokunarpóst við Seltjörn á Grindavíkurvegi nær Reykjanesbraut en nú er hann kominn við bílastæðið við Bláa lónið. Síðan hefur lokunarpóstur sem var við Suðurstrandarveg við gatnamót Krýsuvíkurvegar verið færður og er við bílastæði P-1 við við Fagradalsfjall,“ segir Úlfar við mbl.is.

Ferðamenn dreifast um svæðið

Úlfar segist hafa ekið um Grindavíkurveg í morgun á leið inn í Grindavík. Hann segir að ferðamenn dreifist um svæðið. Þeir hafi ekki verið margir á ferðinni en hann gerir ráð fyrir því að þeim fari fjölgandi þegar líða tekur á daginn og sérstaklega í ljósaskiptunum.

Margir ferðamenn vilja berja eldgosið augum.
Margir ferðamenn vilja berja eldgosið augum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður hvort ferðamenn hafi verið eitthvað til vandræða og hætti sér of nærri gosinu segir Úlfar:

„Það eru auðvitað þessi aðvörunarorð að fara ekki inn á svæðið en þeir hafa ekki verið til vandræða og ég veit ekki til þess að við höfum fengið útköll vegna ferðamanna síðasta sólarhring.“

Úlfar segir að umferð um Reykjanesbraut gangi vel og ekki hafi skapast vandræðaástand þar eftir að gosið hófst.

„Það breytti auðvitað miklu þegar við færðum lokunarpóstinn á bílastæðið við Bláa lónið. Þá fer þessi umferð inn á Grindavíkurveg í stað þess að bílar séu að stoppa í vegkantinum á Reykjanesbrautinni,“ segir Úlfar.

Dvalið í 27 húsum í nótt

Að sögn Úlfars er einhver starfsemi í Grindavík þar á meðal hjá Vísi en dvalið var í 27 húsum í Grindavík síðastliðna nótt. Hann segir að vinna sé enn í gangi við varnargarðana sem er unnin í dagvinnu, frá klukkan 8 að morgni til 19 á kvöldin.

Úlfar segist reikna með að gosið muni malla áfram næstu vikurnar sé horft til síðasta goss.

„Þetta gos virðist haga sér með svipuðum hætti og það síðast en sem betur fer sé það fjarri innviðum,“ segir Úlfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert