Ný skýrsla um tölvuleikjaspilun barna sýnir að fjórðungur nemenda í 4.-10. bekk sem spila tölvuleiki segjast eyða miklum tíma í þá.
87% barna í 4.-10. bekk spila tölvuleiki og 65% í framhaldsskóla. Þá spila strákar meira en stelpur, sem dæmi má nefna að í 8.-10. bekk spila 69% stelpna tölvuleiki og 96% stráka.
Menntavísindastofnun framkvæmdi könnunina Börn og netmiðlar fyrir Fjölmiðlanefnd í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum. Fyrirhugað er að framkvæma sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til samanburðar.
Spurð hvort þau hafi spilað tölvuleiki með 18 ára aldurstakmarki svara 36% þeirra í 4.-10. bekk játandi og 57% í framhaldsskóla. Strákar eru mun líklegri til þess að svara spurningunni játandi.
Hlutfall þeirra sem finnast tölvuleikir auðvelda sér að eiga í samskipum við vini sína eru 43% í 8.-10. bekk, 38% í 4.-7. bekk og 34% í framhaldsskóla.
46% nemenda í 4.-7. bekk eru sammála því að tölvuleikir bæti enskukunnáttu sína og 65% þeirra á unglinga- og framhaldsskólastigi.
Rúmur þriðjungur þátttakenda er sammála því að þeir læri mikið af tölvuleikjum og rúmur fjórðungur er sammála því að hafa eignast fleiri vini í gegnum tölvuleiki.
Hlutfallslega fleiri strákar en stelpur eru sammála því að þeir eyði miklum peningum og tíma í tölvuleiki, þeir fái oft leiðinlegar athugasemdir á netinu þegar þeir spila tölvuleiki og að vinir þeirra skilji þá oft út undan í tölvuleikjum.